Hamingjan: Tónleikar með lögum við texta Þorsteins Eggertssonar

fellaskoli_thorsteinn_eggerts_0013_web.jpg
Nemendur Tónlistarskólans í Fellabæ standa í kvöld fyrir tónleikum undir yfirskriftinni „Hamingjan“ þar sem þeir flytja lög við texta Þorsteins Eggertssonar. Tónlistarstjórinn segir markmiðið með tónleikunum að kynna klassíska íslenska popptónlist fyrir krökkunum og kynnast hljómsveitarbransanum.

„Þessir tónleikar eru stærri en venjulegir tónleikar. Við erum með stór hljóð- og ljósakerfi og hugmyndin er að sýna krökkunum hvað hljómsveitarbransinn gengur út á,“ segir tónlistarstjórinn Hafþór Valur Guðjónsson.

Í fyrra voru haldnir tónleikar með lögum Ingimars Eydal en að þessu sinni urðu lög með textum Þorsteins fyrir valinu.

„Þetta er eins og með lög Ingimars í fyrra, fæstir krakkarnir könnuðust við lögin þegar við byrjuðum að sýna þeim þau. Við viljum kynna þeim klassíska íslenska popptónlist. Sumum finnast þau hallærisleg í byrjun en undir lokin þykir flestum vænt um lögin sín.“

Allir nemendur poppdeildar skólans koma fram á sýningunni sem fjórir kennarar stýra. „Þau hafa verið misdugleg að æfa sig heima, eins og gengur og gerist en metnaðurinn blossar upp í þeim þegar þau sjá alvöruna sem fylgir þessu, sérstaklega þegar við erum byrjuð að æfa á sviðinu með ljósi og öllu.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 18:00 í sal Fellaskóla. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.