Grunnskólabörn á Seyðisfirði vinna með verk Gunnlaugs Schevings

Kennsla á miðstigi Seyðisfjarðarskóla hefur verið brotin upp síðustu tvo daga en krakkarnir hafa unnið eigin verk út frá þekktu verki listmálarans Gunnlaugs Schevings, sem bjó á Seyðisfirði á tímabili.

Listaverkið er í eigu Listasafns ASÍ en sambærileg verkefni hafa verið unnin víðar um landið. Vinnustofan eystra er haldin með stuðningi AFLs Starfsgreinafélags í tilefni af 10 ára afmæli félagsins.

Verkið sem varð fyrir valinu kallast „Fiskibátur“ en talið er að sjómennskumyndir Gunnlaugs séu innblásnar af veru hans á Seyðisfirði.

Farið er með málverkið inn í skólastofu þar sem nemendur fá að skoða verkið og fræðast um tilurð þess og höfund. Börnin vinna síðan hreyfimyndir sem innblásnar eru af viðkomandi verki. Þannig gefst þeim tækifæri til túlka verkið og gefa því nýtt líf.

Nemendur vinna í litlum hópum með aðstoð kennara sinna, búa til söguþráð, vinna klippimyndir úr pappír, mynda þær með spjaldtölvum, klippa þær til í klippiforriti og hljóðsetja. Þannig kynnast nemendur vel verkinu sjálfu í samhengi við listasöguna, læra um myndbyggingu, sjónarhorn og litanotkun, sögugerð og handritaskrif, tæknivinnslu, hljóðvinnslu og kynnast jafnframt kvikmyndaferlinu frá upphafi til enda.

Kennarar á námskeiðinu eru Ragnheiður Gestsdóttir myndlistar- og kvikmyndagerðarkona og Sigrún Jónsdóttir básúnuleikar og tónskáld. Einnig verður Kolbrún Vaka Helgadóttir með í för en hún mun vinna stuttmynd um vinnustofuna sem verður gerð aðgengileg á heimasíðu Listasafnsins ásamt stuttmyndum frá öðrum stöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.