Gengu báðir um með sama drauminn

„Við erum með fókus á að bjórinn sé góður, þjónustan sé góð og verðin séu sanngjörn, en þá teljum við að þetta geti ekki klikkað,“ segir Daði Hrafnkelsson, annar eigandi Beljanda Brugghúss á Breiðdalsvík.


Beljandi brugghús opnaði á Breiðdalsvík í sumar og Að Austan á N4 leit við hjá þeim Daða og Elísi Pétri Elíssyni síðsumars.

Báðir gengu þeir með sama drauminn í maganum án þess að hafa nokkru sinni rætt við hvorn annan, en segja má að hann sé tvíþættur; að opna brugghús á Breiðdalsvík og þá gera eitthvað fyrir sinn heimabæ í leiðinni.

 

Barinn er á gæruloftinu

Brugghúsið er í gamla sláturhúsinu á Breiðdalsvík, sem er eitt af elstu húsum bæjarins. Barinn er staðsettur á efri hæð hússins og gengur undir nafninu Gæruloftið því á tíma sláturhússins voru gærurnar saltaðar á loftinu.

„Mörg brugghús eru þannig að ekki er hægt að heimsækja þau eða sjá hvernig ferlið fer fram. Okkur fannst nauðsynlegt að fólk gæti heimsótt brugghúsið, fengið sér bjór og horft á ferlið í leiðinni,“ segir Elís.

Strákarnir segja viðtökurnar í sumar hafa verið ævintýralega góðar og þeir hafi ekki haft undan að framleiða. Þeir hafa verið með tvær tegundir, Beljanda (Pale Ale) og Spaða (IPA). Þriðja tegundin er væntanleg og mun sá bjór bera nafnið Skuggi (Porter).

Sölustaðir eru Beljandi brugghús, Hótel Bláfell á Breiðdalsvík, Hótel Staðalborg í Breiðdal, Havarí í Berufirði, Skúli bar, Mocro bar, Kex hostel, Matur og drykkur og Forréttabarinn, allir í Reykjavík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar