Gengu á sjö tinda á rúmum 20 klukkutímum

„Auðvitað þarf maður að vera í góðu formi til að klára þetta og ekki síður andlega en líkamlega,“ segir Magnús Baldur Kristjánsson, sem hlaut nafnbótina Ofurfjallagarpur Seyðisfjarðar á dögunum ásamt vini sínum Gunnari Sverri Gunnarssyni.


Gönguklúbbur Seyðisfjarðar stendur á bakvið verkefnið „Fjallagarpur Seyðisfjarðar“ og hefur komið fyrir gestabókahirslum á sjö fjallatoppum við Seyðisfjörð. Í hirslunum eru einnig gatatangir með mismunandi munstri eftir fjalli, til að gata stimpilkort sem á eru letruð nöfn fjallanna sjö. Alls hafa fjórtán fjallagarpað klárað verkefnið á síðasliðnum tíu árum.

Þrír göngugarpar hafa hins vegar gengið skrefinu lengra og farið á alla sjö tindana á innan við sólarhring og þar með hlotið nafnbótina „Ofurfjallagarpar Seyðisfjarðar“. Þetta eru auk Magnúsar Baldurs göngufélagi hans Gunnar Sverrir Gunnarsson og Jónas Pétur Jónsson, en hann gekk öll fjöllin á rúmri 21 klukkustund í júlí 2009. Nánar má lesa um þetta hér.

Síðasti tindurinn var erfiðastur
Þeir Magnús Baldur og Gunnar Sverrir réðust í verkefnið í júlí, en fyrir utan að vera æskuvinir hafa þeir verið saman í göngufélagi í nokkur ár. En hvernig datt þeim það í hug og er þetta vel gerlegt?

„Það er góð spurning. Pabbi Gunnars Sverris, Gunnar Sverrisson, er formaður Gönguklúbbs Seyðisfjarðar og hann var búinn að nefna þetta við okkur. Gunnar Sverrir sagðist svo við mig einn daginn að hann ætlaði að láta á þetta reyna, hvort ég væri ekki með,“ segir Magnús Baldur.

Tindarnir sjö eru allan hringinn í firðinum, tveir þeirra norðan megin og fimm sunnanmegin. Ekki má nota nein vélknúin tæki til þess að koma sér milli staða, heldur verður einnig að ganga milli fjalla.

„Samkvæmt mælingu voru þetta um 55 kílómetrar og 4,2 kílómetrar í hækkun, en allir tindarnir eru yfir 1000 metrar nema einn,“ segir Magnús Baldur, en þeir félagar kláruðu á 20 klukkustundum og 20 mínútum.

Magnús Baldur segir að erfiðasti hjallinn hafi verið eftir fimm tinda. „Sá síðasti var líka mjög erfiður og þá töluðum við nánast ekkert saman, heldur bara settum undir okkur hausinn og héldum áfram. Við vorum alveg hrikalega ánægðir með að komast á toppinn og að hafa klárað þetta.“

Magnús Baldur segir að það sé mesta furða hve fljótir þeir voru að jafna sig. „Við vorum mjög svangir daginn eftir og borðuðum stanslaus, annars vorum við farnir af stað í fjögurra daga göngu þrem dögum seinna.“




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.