Fylgdust með því hvernig samfélagshjartað sló

„Þetta er stór áfangi og ég er mjög sátt við myndina og tilbúin til þess að láta hana frá mér,“ segir Karna Sigurðardóttir sem forsýnir heimildamynd sína 690 Vopnafjörður á Vopnafirði á sunnudag.



Karna segir myndina fjalla um ákveðinn veruleika sem felst í því að búa á Vopnafirði og vonar að þá um leið geti önnur samfélög af sömu stærðargráðu speglað sig í henni. Myndin er í sjónvarpslengd eða rúmar 50 mínútur og var tekin upp á árabilinu 2012 til 2017.

„Þetta er ekki söguleg heimildamynd eða upplýsingamynd um liðinn tíma, heldur samtíma- og upplifunarmynd þar sem samfélagið rýnir í sjálft sig og samband sitt við staðinn sem þeir búa á,“ segir Karna en sjálf er hún alin upp í Fellabæ og hefur áhuga á virkni og heimsmynd þeirra sem alast upp í litlu samfélagi við sérstaka náttúru.

En hvers vegna ákvað hún að beina kastljósinu að Vopnafirði? „Upphaflega var haft samband við mig frá Vopnafirði, en Magnús Már Þorvaldsson, fulltrúi hreppsins hringdi í mig um mitt ár 2012 og óskaði eftir samstarfi við okkur Sebastian Ziegler í kjölfar Make it happen ráðstefnunnar. Ég þekki lítil samfélög á Austurlandi vel enda fædd og uppalin í einu slíku, en Vopnafjörð þekkti ég alls ekki neitt. Það var því áskorun að kynnast því samfélagi, en þó í samhengi við eitthvað sem ég þekki. Ég talaði við fjölmarga og það koma langt í frá allir fram í myndinni, sem er eðlilegt í heimildamyndagerðinni. En hver og ein rödd sem hljómar í myndinni stendur fyrir ákveðið viðfangsefni sem brennur á Vopnfirðingum og þannig verður til mósaík mynd af stað, tíma og andrúmslofti.“

Eins og farfuglarnir á vorin
Karna segir að henni og myndatökumanninum Sebastian hafi verið tekið vel í samfélaginu. „Auðvitað fannst fólki þetta skrítið til þess að byrja með en svo vorum við bara orðin eins og farfuglarnir á vorin, komum og fórum og fylgdumst með því hvernig hjartað í samfélaginu sló. Hugmyndin var alltaf að þetta myndi gerast náttúrulega, að við myndum vinna traust fólks og fá það þannig til þess að opna sig. Það gekk upp, en tók tíma fyrir alla að skilja um hvað þetta snérist og vilja taka þátt. En við erum ekki vélmenni og meðan ég var að rannsaka íbúana voru þeir auðvitað að rannsaka mig við að rannsaka þá.“

Myndin er persónulegt ferðalag
Karna er sátt með að myndin sé persónuleg og ljóðræn í bland við að segja varpa upp mynd af bæjarfélagi sem fáir þekkja til hlítar. „Þetta er ótrúlega stórt verkefni sem hefur tekið langan tíma, ég er sjálf búin að eiga tvö börn á þessu tímabili þannig og þetta hefur verið mikið persónulegt ferðalag. Mér finnst ég hafa náð einhverju jafnvægi sem ég var að leita að, en auðvitað er hún ekki frekar en önnur mannanna verk hafin yfir gagnrýni. Það verður áhugavert að sýna hana á Vopnafirði og eiga þetta samtal við fólk, því það er eðli svona mynda að margt hefði verið hægt að gera öðruvísi. Mörgum mun finnast vanta margt, en svona er þessi mynd, þessi taktur og ég vona að hún verði fólki innblástur til að skoða samfélagið sitt með jákvæðum augum, hlýju og skilningi.“

690 Vopnafjörður verður forsýnd þrisvar sinnum á Vopnafirði um helgina en síðan frumsýnd á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda á Patreksfirði um næstu helgi. Tímasetningar má sjá hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.