Franskir dagar hefjast í kvöld

Dagskrá Franskra daga á Fáskrúðsfirði hefst af fullum krafti í dag. María Óskarsdóttir, formaður undirbúningsnefndar fyrir hátíðina, segir allt klappað og klárt og stemminguna góða fyrir hátíðinni.

Dagská hátíðarinnar er fjölbreytt að vanda „Dagskráin er hefðbundin eins og verið hefur undanfarin töluvert mörg ár, þó það sé alltaf eitthvað aðeins nýtt inná milli,“ segir María og bætir við „ég er til dæmis mjög spennt fyrir BLIND tónleikunum sem verða í kirkjunni á Laugardaginn.“

Einn af vinsælli liðum hátíðarinnar sem hefur unnið sér fastan sess meðal Fáskrúðsfirðinga og gesta er kenderíisgangan sem fram fer í kvöld. Eftir gönguna bætist þó við nýr dagskrárliður sem ekki hefur verið áður, vínilplötukvöld í Templaranum. „Hugmyndin er notaleg kvöldstund þar sem hægt verður að koma með uppáhalds vínilplötuna sína og fá hana spilaða, svona kaffihúsastemming,“ segir María.

Fastir liðir hátíðarinnar verða á sínum stað, varðeldur og brekkusöngur á Búðargrund, hátíð í miðbænum með götumarkaði og fjölbreyttri dagskrá, dansleikur og sýningar. María segir undirbúning fyrir hátíðina hafa gengið ljómandi vel býst við góðri helgi, „Maður veit auðvitað aldrei hvað koma margir en það er strax komið töluvert af fólki í bæinn og ég er viss um að veðrið verður frábært, það hefur alltaf verið það.“

Í gær var farin ganga yfir Staðarskrarð í aðdraganda Franskra daga en formleg dagskrá í dag hefst á hjólreiðakeppninni Tour de Fáskrúðsfjörður.

Franskir dagar eru haldnir til að fagna tengslum Fáskrúðsfjarðar við Frakkland vegna veiða franska sjómanna við Íslandsstrendur á 18. og 19. öld. Fáskrúðsfjörður var nokkurskonar bækistöð franskra sjámanna hér á landi og eru tengslin við gömlu sjávarbæina á norðurströnd Frakklands enn sterk. Einn þeirra bæja er Gravelines sem er formlegur vinabær Fáskrúðsfjarðar, sendinefnd frá bænum hefur árlega heimsótt franska daga og er verður engin undantekning frá því í ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.