Fluttu inn vinnuafl en fengu fólk

Anna Lára Steindal og Juan Camillo Roman Estrada heimsóttu nýverið austfirska grunnskólanemendur og ræddu við þá um málefni innflytjenda. Þau segja Íslendinga oft gera óljósar kröfur til innflytjenda um aðlögun og líta fremur á þá sem vinnuafl heldur en manneskjur.


Ferð þeirra var farin á vegum Rauða krossins en hún er hluti af herferðinni „Vertu næs“ sem miðar að því að auka skilning á aðstöðu innflytjenda í íslensku samfélagi.

Þau segja stundum erfitt fyrir innflytjendur að komast inn í íslenskt samfélag sem byggi á áralöngum kunningsskap og ættartengslum. Margir fái ekki heldur vinnu samkvæmt menntun því þeir tali ekki íslensku.

Kannanir hafa sýnt að innflytjendur og afkomendur þeirra búa oft við meiri fátækt og minni samfélagsþátttöku, svo sem í skipulögðu íþróttastarfi en Íslendingar. Sinn er siður í hverju landi og Anna Lára bendir á að sums staðar erlendis séu skólar lokaðir foreldrum.

Því sé eðlilegt að þeir sem þaðan komi skilji illa að þeir séu velkomnir í öllu því foreldrastarfi sem hér tíðkast. Þetta sé bara eitt af dæmunum um íslensku kerfin sem innflytjendur skilji illa. „Þetta er ekkert allt útskýrt. Aðlögunin þarf að vera gagnkvæm,“ segir Juan.

Algengt virðist að þeir sem koma lengra að upplifi frekar fordóma. „Þegar umræða um innflytjendur byrjaði hér voru það helvítis Pólverjarnir. Þeir héldu niðri laununum. Nú er talað um hvað Pólverjarnir séu duglegir en allt þetta vonda sem Pólverjarnir voru áður færist á múslimana.“

Juan og Anna segja Íslendinga almennt ekki haldna kynþáttafordómum en ýmsir duldir fordómar geri reglulega vart við sig. Þeir birtist til dæmis í kröfunum um tungumálið. Íslendingar ætlist til að innflytjendur læri tungumálið en séu ekki tilbúnir að hjálpa til við þjálfunina.

„Þú hefur kannski eytt tíma og pening í að læra tungumálið og reynir að tala það en um leið og Íslendingur heyrir einhvern tala íslensku skiptir hann yfir í ensku. Við höldum að við séum að hjálpa með þessu en þegar á reynir eru skilaboðin um kröfurnar misvísandi. Það nennir enginn að æfa með manni,“ segir Juan.

„Við setjum ábyrgðina um aðlögunina á innflytjendur en segjum þeim ekki hvað felst í að aðlagast og vitum það varla sjálf,“ bætir Anna Lára við.

Aftur kemur upp umræðan um tengslasamfélagið. „Við lifum á sömu þúfunni, umgöngumst ættingja og fólkið sem við vorum með í grunnskóla. Við erum ekki vísvitandi að halda fólki utan við en innflytjendur tala um að erfitt geti verið að eignast íslenska vini og mynda tengsl.“

Horft sé á innflytjendur út frá hagsmunum Íslendinga fremur en mæst sé á miðri leið. „Við horfum ekki á það sem fólkið hefur fram að færa þannig við getum búið til eitthvað nýtt í sameiningu. Við nálgumst þá út frá okkar hagsmunum. Eins og sagt var um Evrópu eftir stríð þá fluttu menn inn vinnuafl en fengu fólk,“ segir Anna Lára.

Lengri útgáfu af viðtalinu má finna í Austurglugganum sem kom út 27. maí.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.