Flottar viðtökur við nýrri stuttmynd um Dyrfjallahlaupið

Ný tólf mínútna löng stuttmynd um Dyrfjallahlaupið var frumsýnd á Egilsstöðum og Borgarfirði eystri í vikunni og voru undirtektir góðar á báðum stöðum.

Dyrfjallahlaupið er viðburður sem sannarlega hefur öðlast sess sem einn sá þekktasti á Austurlandi ár hvert en undantekningarlítið fjölgar keppendum í hlaupinu ár frá ári og á köflum komast að færri en vilja. Um er að ræða utanvegahlaup um einhverjar fegurstu slóðir Austurlands, Víknaslóðirnar, auk þess að umgjörðin hefur síðustu árin verið gerð sífellt fjölskylduvænni og má segja að hlaupið sé upphafið á skemmtun og uppákomum í firðinum sem standa nánast í heilan mánuð fram yfir Bræðsluhelgina vinsælu.

Aðstandendur tóku upp á því í haust að setja saman heimildarmynd um hlaupið en meginhugmyndin með þeirri mynd er að koma hlaupinu enn betur á framfæri bæði innanlands og utan. Að sögn Olgeirs Péturssonar, eins aðstandenda, er verið að leggja lokahönd á textun myndarinnar fyrir erlenda markaði og þá verður myndin í heild aðgengileg á samfélagsmiðlum.

„Þetta er fyrst og fremst gert í kynningarskyni. Þetta er geggjað konsept og geggjuð mynd og full ástæða til að kynna það fyrir eins mörgum og hægt er. Það voru tveir bræður, Þorsteinn og Sigurður, sem gera myndina og gera það vel enda vinna þeir báðir við þetta og eru þaulvanir. Við erum í samstarfi við Visit Austurland en fengum enga styrki neitt til framleiðslunnar þannig. Við höfum þó náð samkomulagi við erlendan dreifingaraðila um að koma myndinni á framfæri og þess vegna erum við nú að textasetja hana fyrir markaðinn erlendis.“

Hér að neðan má berja augum svokallaðan „teaser“ úr myndinni en að sögn Olgeirs eru aðeins einhverjir dagar í að hún verði aðgengileg í fullri lengd á samfélagsmiðlum.

https://fb.watch/pTpGEdP5B1/

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.