Fleiri myndir af Lagarfljótsorminum: Ásókn í verðlaunaféð

lagarfljotsormurinn_sigad_web.jpg

Fleiri myndir hafa borist sveitarfélaginu Fjótsdalshéraði af Lagarfljótsorminum sem fyrir fimmtán árum hét verðlaunafé hverjum þeim sem birti ósvikna mynd af orminum. Í gær var skipuð sannleiksnefnd til að fara yfir myndband Hjartar Kjerúlf frá í vetur. Útlit er fyrir að verkefni nefndarinnar verði fleiri.

 

Sigurður Aðalsteinsson frá Vaðbrekku á Jökuldal sendi Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs í morgun mynd sem hann náði af orminum undan Arnheiðarstöðum í Fljótsdal í byrjun júlí.

„Það styður enn frekar að þetta sé ormurinn umtalaði að þarna sést hann eigi langt frá Húsatanga sem hann mun tjóðraður við.“ Í tölvupósti sínum fer Sigurður fram á að fá greidda hálfa milljón í verðlaunafé fyrir myndina af orminum.

Austurfrétt greindi frá því í gær að bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefði skipað þrettán manna sannleiksnefnd til að fara yfir myndband Hjartar Kjerúlf af orminum. Árið 1997 hét bæjarstjórn Egilsstaðabæjar hálfrar milljónar króna verðlaunum hverjum þeim sem sannanlega næði orminum á mynd. Hjörtur hefur sótt um að fá það greitt fyrir myndbandið.

Engin mynd þótti nógu góð í það skiptið en bæjarstjórnin ákvað að láta loforðið standa. Fljótsdalshérað hefur síðan tekið við skuldbindingum Egilsstaðabæjar.

Í svari sínu til Sigurðar segir Björn bæjarstjóri að hann muni kynna erindið fyrir bæjarráði „og þykir mér ekki ólíklegt að það kjósi að fela sannleiksnefndinni málið til frekari umfjöllunar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.