Fjölsótt í endurnýjaða gufubaðsaðstöðu Eskfirðinga

Í desember síðastliðnum var loks opnuð almenningi að nýju gufubaðsaðstaðan í sundlaug Eskifjarðar og þar inni allt glænýtt eða endurbætt frá grunni. Viðtökurnar hafa ekki látið á sér standa að sögn rekstrarstjóra.

Það sem átti í byrjun árs 2023 í versta falli að vera eins til tveggja mánaðar löng lokun á vinsælli gufubaðsaðstöðunni í sundlauginni sökum nauðsynlegra endurbóta reyndist á endanum verða tæplega árslöng eyðimerkurganga með tilheyrandi óánægju bæjarbúa og annarra sem aðstöðuna notuðu reglulega.

Jóhann Ragnar Haraldsson, rekstrarstjóri sundlaugarinnar, segir starfsfólk hafa þurft að eiga reglulega við ósátta gesti á þeim tíma en tekur fram að það sé ósköp skiljanlegt jafnvel þó vandamálið hafi á engan hátt verið þeirra sök né í raun annarra.

„Það sem gerist er að þegar menn fóru að taka niður klæðninguna á gufubaðinu og rífa þar allt út kom í ljós að á millivegg milli sturtusvæðis og gufubaðsins fannst mygla. Verra var að sú mygla var greinilega farin að teygja sig í þakstoðir hússins og menn höfðu jafnvel áhyggjur af því að hún hefði dreifst alla leið í geymslusvæði eða bílskúr sem þarna er við hliðina. Þannig að það sem átti að vera tiltölulega snöggt bað ef svo má segja varð á endanum töluvert lengra verkefni en nokkuð sá fyrir.“

Endurbætt aðstaðan hefur þó kætt margan heimamanninn síðan opnað var að nýju og aðsókn verið með miklum ágætum að sögn Jóhanns.

Það sést kannski heldur illa á meðfylgjandi mynd af gufubaðsaðstöðunni en þarna inni er allt meira og minna nýtt eða endurbætt. Myndir Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.