„Ferðamenn eru æstir í að eignast fugla“

„Við höfum verið í samstarfi við Gunnarsstofnun í mörg ár og síðustu þrjá páska höfum við verið með sérstaka páskasýningu,“ segir Sunneva Hafsteinsdóttir, sem stýrir sýningunni Fuglar sem opnuð verður á Skriðuklaustri á sunnudaginn. 


Sýningin verður opnuð á sunnudaginn og stendur milli 14:00 og 17:00 þann dag. Er hún samstarfsverkefni Handverks og hönnunar og Gunnarsstofnunar.

Á sýningunni eru fuglar af fjölbreyttum toga í formi listmuna, handverks, bóka og mynda. Sýnendur eru þau Guðrún Gísladóttir, Smávinir - Lára Gunnarsdóttir, Hafþór Ragnar Þórhallsson, Úlfar Sveinbjörnsson, Oddný Jósefsdóttir, Ágúst Jóhannsson, Margrét Þórarinsdóttir, Rán Flygering/Hjörleifur Hjartarson, Erna Jónsdóttir og Stöðfirðingurinn Rósa Valtingojer.

Vorboðinn ljúfi
„Að þessu sinni ákváðum við að leggja áherslu á fulgana og vorið. Við völdum fugla frá níu listamönnum, víðsvegar að af landinu og meðal annars frá Rósu Valtingojer á Stöðvarfirði. Fuglarnir eru eðlilega mismunandi og sýningin því afar fjölbreytt,“ segir Sunneva.

Sunneva segir að fuglarnir séu afar vinsæl vara. „Ferðamenn eru æstir í að eignast fugla, en það er ekki á hvers manns færi að skapa þá og mikil kúnst að ná forminu. Íslendingar hafa líka mikinn áhuga á fuglum og tel ég það helgast af því að fuglalíf er mikið og fjölbreytt hérlendis og við erum í mikilli nálægð við þá, hvort sem er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Svo eru fuglar alveg meinlausir, vekja gleði og eru okkar helsti vorboði.“

Formleg opnun verður föstudaginn langa
Á sýningunni er einnig bókin Fuglar sem Angústúra gaf út í fyrra. Að auki verður spilið Fuglafár eftir þær Birgittu Steingrímsdóttur og Heiðdísi Ingu Hilmarsdóttur á staðnum og geta gestir spreytt sig á því.

Dagleg opnun hefst svo á Skriðuklaustri föstudaginn langa 30. mars og frá þeim degi verður opið kl. 12-17 um helgar og á helgidögum en kl. 12-16 virka daga. Sýningin stendur til 22. apríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.