Stolt af tengslunum við Gravelines

Gravelines í Frakklandi hefur til margra ára verið vinabær Fáskrúðsfjarðar og síðar Fjarðabyggðar. Lögð er rækt við að viðhalda þeim tengslum. Þar er haldin Íslandshátíð á hverju hausti sem fulltrúar frá Fjarðabyggð sækja.

„Við í Fjarðabyggð erum virkilega stolt af tengslum okkar við Gravelines. Saga Fáskrúðsfjarðar og Gravelines er einstök og er erfitt að ímynda sér þær aðstæður sem fjölskyldur lifðu við á þessum tíma. Þannig tengjast Fáskrúðsfjörður og Gravelines órjúfanlegum böndum sem mikilvægt er að gera góð skil,“ segir Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð.

Hún sótti þar sérstaka Íslandshátíð síðasta haust en hún er haldin í september hver ár. „Við höfum átt gott samstarf í gegnum árin og erum ennþá að læra hvert af öðru. Þessar gagnkvæmu heimsóknir eru okkur mjög mikilvægar. Frönskum ferðamönnum hefur fjölgað til muna á Fáskrúðsfirði og eru þeir tíðir gestir á safninu Frakkar á Íslandsmiðum, enda engin furða þar sem safnið er virkilega vel heppnað.

Okkar vilji er að halda áfram að rækta sambandið og tengslin enn betur, efla samskipti á milli unga fólksins okkar og þar með halda í heiðri þeim gildum og sögu sem bæjarfélögin okkar eiga saman,“ segir Hjördís.

Gravelines stendur við norðurströnd Frakklands, um tólf kílómetra frá strandborginni Calais, þar sem Ermasundsgöngin koma í land Frakklandsmegin. Þar búa tæplega tólf þúsund manns og bærinn því tvöfalt fjölmennari en vinabæjarsveitarfélagið á Íslandi.

Á Íslandshátíðinni í fyrra var meðal annars sótt í smiðju Annie Ardaens sem hefur fært til bóka sögur af lífi þeirra kvenna sem biðu heima í Frakklandi á meðan eiginmennirnir sóttu sjóinn við Íslandsstrendur. Þá er yfir helgina minnst látinna sjómanna, líkt og gert er á Frönskum dögum sem haldnir eru ár hvert á Fáskrúðsfirði.

Við slíka athöfn hélt Birgir Jónsson, annar bæjarfulltrúi, þar sem hann kom inn á mikilvægi þess að heiðra söguna og miðla henni áfram til komandi kynslóða. Það væri mikilvægt að þekkja fortíðina til þess að leiðbeina okkur í framtíðinni.

Hjördís og Birgir, lengst til hægri, ásamt heimafólki. Mynd: Fjarðabyggð

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar