Ekki viðeigandi að bílaleiga mælti með brugghúsum

Hertz bílaleigan hefur fjarlægt af vef sínum kynningar um íslensk brugghús eftir ábendingar um að ekki væri viðeigandi að bílaleiga mælti með áfengisdrykkju. Tvö austfirsk brugghús voru á listanum.

Frá þessu er greint á vef viðskiptaritsins Forbes en það var blaðamaður þess, á leið til Íslands, sem setti spurningamerki við hvort viðeigandi væri að bílaleigan mælti með brugghúsum á sama tíma og hún áminnti ökumenn um að akstur og áfengi ættu ekki samleið.

Í svari frá talsmanni fyrirtækisins á heimsvísu segir að um hafi verið að ræða gjörning af hálfu leyfishafa Hertz af Íslandi. Sá hafi fengið áminningu um gildi Hertz, sem fordæmi akstur undir áhrifum áfengis, og fjarlægt bjórkynningarnar.

Íslensk lög eru í strangara lagi á heimvísu þar sem ökumenn mega aðeins hafa 2 prómill af áfengi í blóði. Forbes bendir á að auðveldlega sé farið yfir þau mörk með einum bjór eða vínglasi og viðmiðið sé til dæmis fjórum sinnum strangara en í Bandaríkjunum. Í mörgum ríkjum heims er miðað við 5 prómill, þótt einnig finnist ríki sem banni áfengi með öllu í blóði ökumanna.

Hertz mælti með tólf íslenskum brugghúsum, þar á meðal Beljanda á Breiðdalsvík og Austra á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.