„Ég hef aldrei reykt eða drukkið brennivín“

„Ég hef verið afskaplega heppin og mjög hraust. Ég finn til dæmis aldrei til í herðunum og ég er mjög þakklát fyrir að fá að halda minninu, þó svo ég sé nú farin að gleyma,“ segir Anna Hallgrímsdóttir á Eskifirði, sem fagnaði 100 ára afmæli sínu þann 7. ágúst síðastliðinn.


Anna er fædd á Helgustöðum í Reyðarfirði þann 7. ágúst 1917. Hún er dóttir hjónanna Hallgríms Stefánssonar (f. 1887, d. 1923) og Helgu Sveinlaugar Helgadóttur (f. 1886, d. 1971). Anna var næstyngst í sex systkina hópi, það elsta fætt 1910 og yngsta 1923.

Anna bjó fyrstu sex árin á Helgustöðum í Reyðarfirði en allar götur síðan á Eskifirði. Árið 1923, sama ár og yngsti bróðir hennar fæddist, fórst faðir þeirra í hörmulegu sjóslysi á bátnum Kára. Þrír aðrir drukknuðu. „Mamma stóð þá eftir með sex börn, það yngsta á fyrsta ári og elsta þrettán ára. Sjálf var ég sex ára. Þetta var ansans högg, það verður að segjast,“ segir Anna.

Man vel eftir slysinu í Helgustaðanámunni
Hvorki er að sjá eða heyra að Anna hafi nýlega fyllt heila öld, en hún er einstaklega vel á sig komin og virðist lítið farin að gleyma. Hún segist muna glöggt eftir árunum úti á Helgustöðum. „Ég man sérstaklega eftir atviki sem átti sér stað þegar verið var að vinna í námunni, sama ár og báturinn fórst. Við krakkarnir vorum látin trítla út og færa vinnumönnunum mjólk og eitthvað til að borða. Það var alveg ofsalegt rigningarveður, ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Þeir voru þrír að taka saman verkfærin, pabbi, Ottó í Sigmundarhúsum og sá þriðji hét Egill. Egill þessi var að búa sig undir að giftast konu sem hafði verið kaupakona hjá foreldrum mínum. Það féll stórt bjarg úr námunni. Pabbi slapp, Ottó meiddist lítillega en Egill varð alveg undir og lést. Svona gekk það nú til.“

„Einar var alveg yndislegur eiginmaður“
Anna byrjaði snemma að vinna við uppstokkun og fleira en segist hafa ekki hafa verið mikið fyrir það gefin að vinna í fiski eftir að hún eltist, heldur valdi frekar að vera í kaupavinnu.

„Einar var alveg einstakur eiginmaður og yndislega góður í alla staði,“ segir Anna um eiginmann sinn, Einar Kristjánsson. Þau trúlofuðu sig þegar hún var 18 ára og giftu sig ári síðar. Saman áttu þau börnin Höllu, Ríkharð og Guðnýju. Einar lést árið 1994.

Einar starfaði lengst af sem gjaldkeri í Landsbankanum á Eskifirði, eða í 46 ár. Sjálf vann Anna hjá Landsbankanum þar sem hún sá um kaffistofuna í tuttugu ár.

„Ég er rík kona“
Afkomendur Önnu eru orðnir 50. „Ég er svo heppin að eiga þessi yndislegu börn og fjölskyldu. Þau tóku sig saman og héldu mér þessa fínu veislu þegar ég sagðist ekki ætla að halda neitt. Ég er rík kona.“

Hver er galdurinn á bak við þennan háa aldur? „Ég tek lýsi á hverjum degi og ég hef aldrei reykt eða drukkið brennivín. Það var bara ákvörðun sem ég tók, ég var búin að sjá bræður mína í alls konar ástandi og það var mér nóg. Ég hef verið afskaplega heppin og mjög hraust. Ég finn til dæmis aldrei til í herðunum og ég er mjög þakklát fyrir að fá að halda minninu, þó svo ég sé nú farin að gleyma.“ Spurð um lífsgildi segir Anna: „Ég hef haft það að leiðarljósi í lífinu að vera alltaf kát og glöð og koma vel fram við aðra, það eru sumir sem eiga bágt með að láta fólk í friði en ég lofa öllum að vera eins og þeir vilja vera.“

Ólýsanlegar samfélagsbreytingar
Segja má að Anna hafi lifað tímana tvenna. „Já, það má nú segja,“ segir hún þegar talið berst að öllum þeim miklu breytingum sem hafa orðið á samfélaginu síðastliðna öld. „Það er alveg ólýsanlegt og allir sjá og vita en auðvitað hefur meira gerst á seinni árum en nokkurn tímann á þessu tímabili, það eru orðnar miklar breytingar á öllum hlutum. Hugsaðu þér alla þá rafvæðingu sem komin er. Öll þessi þægindi, það er alveg ótrúlegt hvað allt hefur þroskast á þann veg, allflest til góðs.“



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.