„Ég er alltaf til í allt“

Tónlistarmaðurinn Benedikt H. Hermannsson, stjórnandi listadeildar Seyðisfjarðarskóla, betur þekktur sem Benni Hemm Hemm, er í yfirheyrslu vikunnar.


Benedikt tók við starfinu í byrjun apríl. „Þetta er draumastarfið mitt þannig að ég þótti lítið að hugsa mig um þegar ég sá það auglýst,“ segir Benedikt.

Aðspurður um markmið fyrir starfið segir hann; „Í grófum dráttum ætla ég að stuðla að því að á Seyðisfirði verði öflugt listastarf á öllum sviðum – að sem flestir fái tækifæri til að sinna listrænni vinnu í góðu vinnuumhverfi og fái að njóta sín á sínu sviði. Einkunnarorð skólans eru að hver nemandi sé fjársjóður, sem er alveg frábært því maður þarf að finna fjársjóð, en það er verðugt markmið að hjálpa nemendum að finna sína leið til þess að blómstra. Skapandi vinna á öllum mögulegum sviðum er mjög mikilvæg fyrir hvern og einn til þess að uppgötva styrkleika sína og finna hvar þeir nýtast best. Þetta legst bara alveg svakalega vel í mig.“



Fullt nafn: Benedikt H. Hermannsson.

Aldur: 37.

Starf: Stjórnandi listadeildar Seyðisfjarðarskóla.

Maki: Auður Jörundsdóttir.

Börn: Guðmundur Ari og Þorlákur.

Hvernig líta kósífötin þín út? Gráar joggingbuxur og grá Bernie Sanders peysa.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Hvað sem er sem inniheldur steikt brokkólí.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Tónlistarmaður.

Vínill eða geisladiskur? Vínill bara.

Hvaða lög af þínum þykir þér vænst um og af hverju? Ég var að rifja upp lag með stráknum mínum í gær sem ég samdi um hann fyrir sjö árum síðan. Það er efst á þessum lista í augnablikinu.

Tæknibúnaður? Elska allt sem virkar.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Gulrótasafi, ostur og smjör.

Efstu þrjú atriðin á „Bucket-listanum“ þínum? Ég hef engan bucket-lista. Jú kannski að fara til Afríku. Það verður að gerast.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er alltaf til í allt.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er alltaf til í allt.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Seyðisfjörður.

Mesta undur veraldar? Veröldin er óskiljanlegt undur. Það fer bara eftir því hvert maður horfir hverju sinni.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Ég væri til í að geta farið út úr líkamanum og flogið á milli staða.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Ég veit það ekki. Fimmtudagar og föstudagar eru góðir. Veit ekki af hverju.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég væri til í að fá að fylgjast með Chopin vinna. Hann spann noktúrnur á kvöldin og á nóttunni, fór svo að sofa og skrifaði þær svo upp þegar hann vaknaði. Já, eða Sókrates eða Hildegard Von Bingen.

Hvernig drekkur þú kaffið þitt? Ég drekk kaffi með munninum. Úr bolla.

Syngur þú í sturtu? Nei.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Hressleiki og opið hugarfar

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Að stilla píanóið – það tekur svo svakalega langan tíma.

Draumastaður í heiminum? Mig dreymir um að fara til Afríku. Namibíu kannski.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Allir sem gera það sem þeir vilja alveg sama hvað öðrum finnst. David Bowie kannski. Vinir mínir Svavar Pétur og Berglind á Karlsstöðum í Berufirði falla líka í þennan flokk.

Duldir hæfileikar? Það gæti farið framhjá mörgum en ég er svakalega góður í að slá gras og raka.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.