„Ég ákvað að nota þetta tækifæri til að læra lögin mín“

„Ég ætlaði reyndar alltaf að henda henni en svona eftir hálfleik sá ég að það var ekki aftur snúið og setti fullan kraft í verkefnið,“ segir listamaðurinn Prins Póló um nýjustu plötu sína Þriðja kryddið sem kom út fyrir stuttu.


Prins Póló segist hafa farið að vinna að plötunni fljótlega eftir að önnur plata hans kom út árið 2014. „Þá fóru að koma til mín einhver stef sem ég skrásetti og í kjölfarið fór þetta að byggjast upp. Bróðurparturinn var tekinn upp í skúrnum heima á Karlsstöðum. Ég naut einnig aðstoðar Flexa vinar míns en hann er upptökustjóri og vann slatta með mér, bæði heima og í Berlín þar sem hann er með stúdíó,“ segir hann.

Aðspurður hvort platan svipi til fyrri verka segir hann; „Að flestu leyti, já. Það er kannski aðeins meira moll og eilítið dekkri litir en alveg sama stuðið og sprellið inn á milli. Það má kannski segja að þetta sé döpur plata með léttum undirtón.“

Hljóðkerfið á pallinum og gítarinn í aftursætinu
Prins Póló hefur verið á tónleikaferð um landið til þess að fylgja plötunni eftir. „Upphaflega ætlaði ég bara að gefa hana út og kannski hafa kynningartónleika í haust en Berglind benti mér á að ég yrði örugglega svo úrvinda eftir sumarið að ég myndi ekki nenna neinu þá – þannig að ef ég ætlaði að gera þetta yrði ég að gera það núna, fyrir vorið.

Ég hringdi því á nokkra staði, hist og her um landið og spurði hvort einhver hefði áhuga á að fá Prinsinn í heimsókn. Hafði því næst samband við góðan vin, Örn Inga Ágústsson og spurði hvor hann myndi nenna að koma mér – halda mér vakandi við stýrið, snúa tökkum á mixerborðinu og selja miða. Hann var til í það, þannig að núna erum við bara að keyra um landið með hljóðkerfið á pallinum og gítarinn í aftursætinu og spila þessi lög. Það er líka stundum þannig að ég sem lögin svolítið hratt og læri þau aldrei almennilega. Ég ákvað að nota þetta tækifæri til að læra lögin mín og nú er ég búinn að því, svona að mestu.“

Endar í túninu heima
Prins Póló er hálfnaður með túrinn. „Hringurinn er tvískiptur. Við vorum að klára fyrri hlutann, vestur- og norðurleiðina með viðkomu fyrir austan. Svo tökum við smá hlé meðan Júróvisjón gengur yfir þjóðina, því geri mér grein fyrir því að það myndi ekki ganga að standa fyrir skemmtanahaldi á meðan. Ég ætla ekki að reyna að keppa við það. Við förum svo af stað með seinni hringinn um miðjan maí og endum heima í Havarí sunnudagskvöldið 20. maí.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.