Dísa Bergs fékk fálkaorðuna

disa_bergs_tak_vef.jpg

Þórdís Bergsdóttir, framkvæmdastjóri Ullarvinnslu Frú Láru á Seyðisfirði, var á þjóðhátíðardaginn sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands.

 

Orðuna hlýtur Þórdís fyrir framlag sitt til ullariðnaðar og hönnunar en hún hefur síðustu árin leitt uppbyggingu nýsköpunarfyrirtæksins Ullarvinnslu Frú Láru. Ullarvinnslan hefur ræktað samstarf við íslenska hönnuði undanfarin ár og sérvalið handa þeim austfirska ull.

„Íslenska ullin hefur sérstaka eiginleika sem mér finnst ekki hafa verið veitt næg athygli, m.a. af bændum sjálfum. Sérstaða íslensku ullarinnar er að þelhárin hafa það umfram aðra ull að vera óreglulega liðuð, hárin falla ekki þétt hvert að öðru og verður þelið því fyrirferðarmeira, heldur í sér meira lofti og einangrar betur. Það er hægt að leika sér endalaust með þæfða ull og nánast hægt að gera hvað sem er með hana, hafi fólk tíma og hugvit.“ sagði Þórdís í viðtali við Morgunblaðið árið 2007 um Ullarvinnsluna.

Þórdís er fædd sjöunda júlí árið 1929 á Ketilstöðum á Völlum, dóttir Bergs Jónssonar og Sigríðar Hallgrímsdóttur. Maður hennar var Tómas Emilsson frá Reyðarfirði en hann lést fyrir tíu árum. Þau eignuðust sex börn. 

Þórdís hefur lengi verið framarlega í ýmsum samfélagsmálum. Hún starfaði árum saman sem heilbrigðisfulltrúi, sat í bæjarstjórn á Seyðisfirði og kom inn sem varaþingmaður fyrir Framsóknarflokki, stýrði Orlofi húsmæðra á Austurlandi og sat í ýmsum nefndum, ráðum og fyrirtækjastjórnum auk þess að sinna mánnúðarstarfi og atvinnu- og félagsuppbyggingu í þágu hvenna. Þórdís hlaut hvatningarverðlaun Tenglanets austfirskra kvenna árið 2007.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.