Djúpið frumsýnir Grís: Danny leggur líf sitt í hendur vina sinna

gris
Leikfélagið Verkmenntaskóla Austurlands, Djúpið, frumsýnir í kvöld leikverkið Grís í Egilsbúð. Leikstjórinn segir æfingarnar hafa gengið vel og mikinn metnað innan skólans fyrir að skila sem glæsilegastri sýningu. Hann lofar óvæntum atburðum á sviðinu.

Söngleikurinn byggir á hugmyndinni frá söngleiknum Grease sem varð vinsæl kvikmynd með John Travolta og Olivu Newton-John í aðalhlutverkum. „Við erum ekki að búa til bíómyndina þó söguþráðurinn sé mjög svipaður,“ segir Stefán Benedikt Vilhelmsson sem leikstýrir verkinu.

Hann er leyndardómsfullur um hvaða breytingar hafa verið gerðar á verkinu. „Við breytum til dæmis sögunni á þann hátt að... Hah! Ég ætla ekki að segja það!“ segir hann. 

„Ég vil ekki skemma fyrir dyggum aðdáendum spennuna en það eru hlutir þarna sem koma þeim sem þekkja til ábyggilega á óvart. Það er skemmtilegur bragur á Ýktu Eldingunni okkar til dæmis. Ýkt Elding, bíllinn hans Kenickie, er smíðaður úr framparti af gömlum Willys. 

Svo er mikið lagt á leikarann sem leikur Danny. Og þau öll. Leikarinn leggur líf sitt í hendur vina sinna í bókstaflegri merkingu í upphafi verks... það er alveg þess virði að sjá þetta bara fyrir það! Tvisvar!“

Um fimmtíu manns koma að sýningunni þegar allt er talið. Á bakvið sýninguna standa Djúpið og listaakademía Verkmenntaskólans undir stjórn Svanlaugar Aðalsteinsdóttur. Þá bætist við stuðningur frá Leikfélagi Norðfjarðar sem endurvakið var fyrir skemmstu.

„Þetta ferli er búið að vera mjög skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir alla. Það er ekkert grín að leggja í svona metnaðarfullt verkefni en hérna er stuðningur við krakkana mikill. Svo er tónlistarlífið hér frábært og við erum með snilldarhljómsveit sem gerir það að verkum að hér er hægt að setja upp svona stóra söngleiki. Það er mjög mikið lagt í þetta af hálfu skólans og reynt að gera eins glæslegt og kostur er – og það er að skila sér.“

Sýningarnar:
Föstudagur 22. febrúar kl. 20:00
Laugardagur, 23. febrúar kl 20:00
Sunnudagur, 24. febrúar kl 20:00
Fimmtudagur, 28. febrúar kl 16:00
Föstudagur, 1 mars kl 20:00
Föstudagur, 1 mars kl 00:00
Laugardagur, 2 mars kl 20:00
 
grisgrisgrisgrisgrisgrisgrisgris
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.