Daníel Byström: „Það er eitthvað einstakt hér á hverjum degi“

Svíinn Daniel Byström hefur undanfarin þrjú ár leitt vinnu áfangastaðarins Austurlands. Á þeim tíma hefur Daniel dvalið langtímum eystra, þó aldrei jafn lengi og í sumar og bjó í þrjá mánuði á Norðfirði.


„Það hefur verið frábært að eyða hér tíma með fjölskyldunni og kynnast Austurlandi á þann hátt sem fólk gerir vanalega ekki. Ég hef kynnst hvernig er að búa hér og fara á skrifstofuna en vera um leið nærri því sem ég held mest upp á í landslagi, fjöllunum og sjónum,“ segir Daniel í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Daniel hefur komið af og til austur undanfarni fimm ár, einkum eftir að vinna við áfangastaðinn Austurland hófst 2014. Í ár bjó hann frá maí og fram í júlí á bænum Þrastarlundi á Norðfirði.

„Því meira sem þú dvelur hér því betur gerirðu þér grein fyrir hve mikið er hægt að gera. Mér leiðist aldrei. Það er svo mikið af fólki sem hægt er að heimsækja.

Ég hef eignast marga vini, einkum í sundlauginni, þangað sem ég fer á morgnana. Ég sit með hinum körlunum og spjalla. Þeir skilja ekki ensku svo ég þarf að læra íslensku.

Hún er ekki það fjarskyld sænskunni. Þú þarft ekki að skilja allt til fulls, ég segi bara „já, já“ og þá halda allir að ég skilji það sem um er rætt.“

Fólk kann að meta það sem er framandi

Vinnan við áfangastaðin hefur ekki einungis snúist um að markaðssetja Austurland fyrir ferðamönnum heldur líka gagnvart núverandi og mögulegum íbúum. Áherslur Daniels hafa ekki síst snúist um að fá íbúa að borðinu.

Niðurstaða þess hefur meðal annars verið að tala um Austurland í alþjóðlegri markaðssetningu. „Auðvitað er hægt að segja að enginn hafi heyrt um Austurland en það sama er hægt að segja um Lappland í Svíþjóð. Nú hafa ferðamennirnir símann og þeir leita þar til þeir finna eitthvað áhugavert.

Síðan er það okkar að benda á það sem er einstakt. Í gær fór ég á kajak á Eskifirði. Það er hægt að fara á kajak hvar sem er í heiminum en ekki undir þessum fjöllum nálægt næ þar sem þú átt allt eins von á að hvalur skjóti upp kollinum við hliðina á þér. Það er framandi og það kann fólk að meta.

Ferðamenn hafa líka gaman af því að tengjast fólkinu og fá innsýn í líf heimafólks. Við renndum fyrir fisk og fengum 20 þorska. Fjóra þeirra fórum við með heim og borðuðum. Heimamanninum finnst það ekkert merkilegt en það er frábært fyrir þann sem aldrei hefur prófað það.

Ég fór líka á Eistnaflug og það er einstakt. Það er eitthvað einstakt hér á hverjum degi, á hverju horni. Þetta einstaka er líka á bak við húsið þitt.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.