Austfirsk skáld til sölu á Menningarnótt

hasi_kisi_web.jpg

Ljóðaklúbburinn Hási Kisi, en hann skipa Hrafnkell Lárusson, Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Ingunn Snædal og Stefán Bogi Sveinsson, stendur fyrir ljóðagjörningi á Menningarnót undir yfirskriftinni Skáld til sölu. Skáldin munu lesa ljóð sín gegn greiðslu, böðuð rauðu ljósi úti í gluggum á Hafnarstræti 17 í Reykjavík. Meiningin er að láta reyna á lögmál framboðs og eftirspurnar eftir ljóðlist.

 

Hási Kisi er ljóðklúbbur sem á rætur sínar að rekja austur á Fljótsdalshérað. Upphafið má rekja til þess að fjögur ljóðskáld hófu að hittast reglulega til þess að lesa efni hvert fyrir annað og til að hvetja hvert annað til frekari dáða á sviði ljóðlistarinnar. 

Í gamni og alvöru hefur hópurinn stundið kallað sig sjálfshjálparhóp ljóðskálda ítilvistarkreppu. Frá upphafi hefur hópurinn staðið fyrir upplestrum og ljóðaviðburðum sem oftar en ekki hafa borið ákveðinn keim af vilja hópsins til naflaskoðunar og vangaveltum um eðli ljóðsins, skáldsins og sambands þess við þann sem les eða hlustar á ljóðin.

Það útheimtir ákveðinn sjálfsbirgingshátt að kalla sjálfan sig skáld. Skáld er ekki lögverndað starfsheiti, maður getur ekki fengið skírteini upp á það og um þetta gilda engar handhægar og aðgengilegar reglur eða leiðbeiningar.

Þessu öllu saman fylgir svo ákveðin dramatík og tilgerð sem meðlimir Hása Kisa hafa á köflum ýmist umfaðmað eða skammast sín fyrir. Má maður þetta?

Er það eðlilegt að rígfullorðið fólk úti á landi, lögfræðingar, kennarar, stjórnmálamenn, foreldrar, veitingamenn og skjalaverðir, geti bara stillt sér upp á stall, borið tilfinningar sínar á torg, kallað sig skáld og ætlast til að samborgarar sínir hafi áhuga á að hlusta á það sem menn vilja kalla ljóð? Og það er kannski þessi spurning sem er sú áleitnasta af þeim öllum. Er einhver sem nennir að hlusta? Og ef enginn nennir að hlusta, eru þá einhver skáld?

Í þessum anda stendur Hási Kisi fyrir viðburðinum Skáld til sölu. Eina leiðin til þess að fá svar við þessari spurningu er að stilla sér upp og falbjóða sig. Ef einhver vill hlusta á eitthvert skáldanna þarf að greiða gjald í þar til gerðan greiðslumæli við glugga hvers og eins. Upphæðin er valfrjáls, hún skiptir í raun engu máli. En til þess að sjá hvort fólk vill í raun og veru hlusta, en er ekki bara svona á leið hjá og staldrar við af skyldurækni, þá verður að borga fyrir ljóðin. Meðlimir Hása Kisa gera sér grein fyrir því að það getur farið svo að enginn vilji hlusta. Ef svo er þá verður svo að vera. En við verðum þá ekki sökuð um að hafa ekki reynt. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.