Af hverju er heiðskýrt á Norðfirði þegar fullt er af þoku annars staðar?

einar_sveinbjornsson_vedurfyrirlestur_0004_web.jpg
Húsfyllir var á tveimur fyrirlestrum veðurfræðingsins Einars Sveinbjörnssonar um staðbundið veðurfar á Egilsstöðum og í Neskaupstað um síðustu helgi. Í Neskaupstað útskýrði Einar meðal annars af hverju oft er þokulaust þar þegar aðrir firðir eru fullir af henni.

Þokan kemur helst inn á Austfirðina í austan og suðaustanáttum. Barðnesið skýlir Norðfirði og lokar fjörðinn af þannig að þokan kemst ekki inn á hann. Á sama tíma geta nágrannastaðirnir, til dæmis Eskifjörður, verið á kafi í þoku.

Minni þoka var á Austfjörðum í sumar heldur en oft áður. Ástæðan fyrir því var að köld tunga sem vanalega er í sjónum við svæðið kom ekki. Því var hér hlýrra og minni þoka.

Hitamælingar sýna samt minni hlýnun á Austurlandi en annars staðar á landinu. Sumarið 2003 var hlýjasta sumar sem mælst hefur á Dalatanga en síðustu sumur hafa ekki komist nærri því. Einar segir að ein skýringin á því sé að áberandi hlýju dagana hafi vantað.

Á móti var veturinn 1979 sá kaldasti sem mælst hefur. Frostaveturinn alræmdi árið 1918 var slæmur en hann var borinn uppi af þremur mjög köldum vikum. Meðaltalið 79 var þannig mun lægra.

Stundum er talað um að á Norðfirði hlægi lognið svo dátt en það staðfesta veðurmælingar ekki. Þvert á móti er eiginlega aldrei logn á Austfjörðum, aðeins í 2% mælinga.

Einar ræddi einnig um hnattræna hlýnun sem Íslendingar hefðu lengi neitað að trúa. Meira sé talað um Íslandsblettinn því veður hefur hlýnað minna hér en annars staðar á jörðinni. Hitinn hérlendis hefur þó hækkað og sérstaklega hafa menn tekið eftir hlýnun sjávar.

Veðrakerfin virðast líka hafa breyst þannig að þótt lægðir séu kraftmeiri og öflugri en fyrr fara þær sunnar. Það leiðir til austanáttar á kostnað suðvestanvinda. Sérstaklega á þetta við um vetrarlægðir undanfarni 10-15 ár. Verstu lægðirnar hér eru framan af vetri. Rólegra er í janúar og febrúar þegar allt er brjálað í Færeyjum.
 
Fyrirlestrarnir voru samstarfsverkefni Austurbrúar, SÚN og AFLs. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.