700IS Hreindýraland kemur heim: Videólist sem útilistaverk

700IS 2013Stuttmyndahátíðin 700IS kemur heim um helgina en verk af hátíðinni verða sýnd í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þema hátíðarinnar í ár er vídeólist sem útilistaverk.

Hátíðin var stofnuð af Kristínu Scheving, þáverandi forstöðumanni Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs árið 2007 og haldin þar fyrstu árin. Kristín fluttist síðan af svæðinu og síðan hefur hátíðin breyst.

Hátíðin hefur ferðast víða og fer á næstunni til Svíþjóðar, Danmerkur, Spánar, Noregs og Ekvador. Henni hefur verið boðið til Marseille í Frakklandi á 50 ára afmælishátíð vídeólistar í heiminum. Í vor ferðaðist Kristín til Hong Kong með úrval verka og var þar sem með sýningarstjóraspjall sem einn frumkvöðla vídeólistar á heimsvísu.

Um helgina verður vídeólist varpað úr gluggum Sláturhússins og einnig verða sýningar á efri hæð hússins. Áhersla verður lögð á sýningar í óhefðbundnum rýmum.

Svipuð dagskrá var á vegum 700IS Hreindýralands á vetrarhátíð í Reykjavík í febrúar í Norræna húsinu, þar sem Kristín starfar í dag, og þótti takast afar vel.

Opnunarhátíðin verður fimmtudaginn 24. október klukkan 20:00 og er hún öllum opin. Sýningar standa síðan fram á sunnudag. Á laugardag verður sýningarstjóraspjall með Kristínu þar sem hún rekur sögu hátíðarinnar og fer í gegnum gagnleg atriði við undirbúning vídeólistahátíðar.

Þá verður boðið upp á sýningu á Borgarfirði eystri á föstudagskvöld sem sýnileg verður úr Ásbyrgi frá klukkan 20:00-23:00.

Meðal listamanna sem eiga verk í ár eru: Dodda Maggy, Sigrún Harðardóttir, Sigurður Guðjónsson, Una Lorenzen, Steina, Elísabet Brynhildardóttir, Kríudóttir, Hulda Rós Guðnadóttir, Sally and Mo, Sari Cedergren, Auður Arna Oddgeirsdóttir, Þórður Grímsson, Viktoría Guðnadóttir, Selma Hreggviðsdóttir, Katrín I Jónsdóttir Hjördísardóttir, Bjargey Ólafsdóttir.

Nánari upplýsingar má finna á www.700.is eða www.facebook.com/700ISReindeerland

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.