Forsetinn hitti Villa á Brekku: Lenti í hrakningum á Mjóafjarðarheiði

Vilhjálmur Hjálmarsson og Ólafur Ragnar GrímssonForseti Íslands hóf yfirreið sín um Fjarðabyggð í gær og koma víða við. Hann hitti m.a. gamlan samherja úr pólitík, Vilhjálm Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði, og rifjuðu þeir upp gamla tíma.

Vilhjálmur er 99 ára að aldri en lét sig ekki muna um að koma frá Mjóafirði yfir á Eskifjörð til þess að hitta Ólaf Ragnar. Ferðin gekk þó ekki alveg óskapalaust en bíllinn sem Vilhjálmur var farþegi í frá Mjóafirði lenti hér um bil út af veginum um Mjóafjarðarheiði og þurfti að kalla eftir aðstoð við að koma bílnum aftur upp á veginn.

Lét Vilhjálmur þetta þó ekki á sig fá og var nokkuð brattur þegar hann kom í Kirkju- og menningarmiðstöðina á Eskifirði til fundar við forsetann.

Áður en Ólafur Ragnar kom í hús var Vilhjálmur spurður hvort hann vildi rifja upp þá daga þegar hann sjálfur og Ólafur leiddu hvor sinn listann í Austurlandskjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 1974. Vilhjálmur kvaðst frekar vilja leita lengra aftur, eða til þess tíma sem þeir voru samherjar í pólitík.

Enda fór svo að þeir rifjuðu upp sögur frá þeim tíma. Ólafur rifjaði m.a. upp það fyrsta sem hann mundi til þess að Vilhjálmur hefði sagt við sig. Það hafi verið fyrir einhvern fund Framsóknarmanna og höfðu þá Ólafur og Baldur Óskarsson verið að fara á milli manna og reyna að fá fylgi við einhverja tillögu.

Vilhjálmur hefði hlustað á þá einhverja stund en sagt síðan: „Já, þetta er sjálfsagt ágætt hjá ykkur, en ég held ég fylgi bara foringjanum í þessu.“ Var þar átt við Eystein Jónsson.

Að loknu spjalli þeirra Ólafs og Vilhjálms sat Vilhjálmur málstofu um norðurslóðamál sem haldin var í kjölfarið. Aðspurður harðneitaði hann því hins vegar að hann fylgdist vel með málefnum líðandi stundar.

„Blessaður vertu, ég nenni því engan veginn!“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.