Austfirskri óperusöngkonu boðið að taka þátt í listaverkefni í breskum miðaldakastala

erla dora vogler web1Óperusöngkonunni Erlu Dóru Vogler hefur verið boðið að taka þátt í listaverkefni sem haldið er í Elísabetarkastala, einum helsta ferðamannastað bresku eyjunnar Jersey á Ermasundi. 

Verkefnið byggir á samstarfi 12 - 15 listamanna á ýmsum sviðum, bæði heimamanna og alþjóðlegra listamanna, og mun standa yfir dagana 20. - 28. október nk. Erlu Dóru var boðin þátttaka í framhaldi af samstarfsverkefni Menningarráðs Donegals á Norðvestur Írlandi, Menningarráðs Vesterålen í Noregi og Menningarráðs Austurlands Awakening The Horsemen.

„Mér er boðið að taka þátt í þessu verkefni vegna þess að leikstýran sem ég vann með í listasýningunni í Donegal, Sue Hill hjá Wildworks, mælti með mér. Ég hlakka mikið til og er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri síðastliðið sumar til að mynda tengsl við listamenn eins og Sue.”

Í Jersey verður unnið með rými kastalans. „Í raun veit ég ekki nákvæmlega hvað mun gerast annað en að við verðum tiltölulega einangraður hópur sem vinnur saman að listasýningu í kastalanum sem verður flutt fyrir áhorfendur í lok samstarfstímans. Listamennirnir koma úr ýmsum listgreinum og ég efa ekki að samvinnan leiði til fjölbreyttrar og skemmtilegrar sýningar,” segir Erla.

Kastalinn var byggður fyrir Elísabetu I, Bretlandsdrottningu og stendur á kletti úti fyrir Jersey. Aðeins er hægt að komast þurrum fótum út í kastalann á fjöru.

Menningarráð Austurlands hefur í átta ár verið í samstarfi við Menningarráðið í Vesterålen í Noregi og hin síðustu ár einnig við Menningarráðið í Donegal á Norðvestur-Írlandi. Styrkur frá Noregi til menningarsamstarfs við Ísland hefur gert menningarráðinu kleift að taka þátt í þessu samstarfi.

Afraksturinn er fjölbreyttur, má þar nefna ýmis listaverkefni fyrir unga listamenn undir yfirskriftinni „Jaðar er hin nýja miðja” og, eftir að Donegal kom inn í samstafið, „EDGES: Three Sides of the Same Sea”. Þá hefur fjöldi listamanna dvalið í listamannaíbúðum auk fjölda verkefna á sviði tónlistar, myndlistar, karnivals, dans og leiklistar.

„Mikilvægur afrakstur þessa samstarfs er tengslanet milli listamanna sem leiða til verkefna án aðkomu menningarráðanna, líkt og í tilfelli Erlu Dóru,“ segir í fréttatilkynningu frá Austurbrú.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.