Æskulýðsstarf kirkjunnar í blóma: Unglingar safna í ferðasjóð

Vígslubiskup kaupir happdrættismiðaUnglingar í æskulýðsfélögum kirkjunnar á Austurlandi selja nú happdrættismiða til styrktar ferðasjóði sínum vegna komandi Landsmóts ÆSKÞ í Reykjanesbæ. Hluti af andvirði hvers selds miða rennur í Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar. Framtíðarsjóðurinn var settur upp af Hjálparstarfi kirkjunnar og er tilgangur hans að styðja ungmenni á aldrinum 16-20 ára til að ljúka starfsnámi, stúdentsprófi eða öðru námi sem greiðir leið til starfsréttinda eða háskólanáms.

Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar heldur árlega landsmót þar sem unglingar úr æskulýðsfélögum kirkjunnar koma saman sér og öðrum til skemmtunar og fræðslu. Mótið hefur verið haldið víða um land og í fyrra var það haldið á Egilsstöðum.

Þátttakendur á mótinu verða nú um 650 talsins frá 33 æskulýðsfélögum. Þar af verða rúmlega 100 unglingar frá Austurlandi sem undanfarna daga hafa verið að selja happdrættismiða til að standa straum af kostnaði við ferðina.

Miðaverð er 1.500 kr. og ýmsir veglegir vinningar eru í boði sem aðilar í verslun og þjónustu í fjórðungnum hafa styrkt æskulýðsstarfið um. Má þar nefna dag í laxveiði í Breiðdalsá með gistingu og fæði, gisting hjá nokkrum ferðaþjónustuaðilum á Austurlandi, gjafabréf frá Flugfélagi Íslands, bíll í Reykjavík í tvo daga hjá Bílaleigu Akureyrar, jólahlaðborð og gisting á Hótel Hallormsstað, kvöldverður á Gistihúsinu Egilsstöðum, austfirskir handgerðir skartgripir og glerlistaverk, barnafatnaður, framköllun og borgfirskur harðfiskur, svo fátt eitt sé nefnt.

Vígslubiskupinn á Hólum, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, keypti í vikunni fyrsta happdrættismiðann í heimsókn hennar á vinavikuna á Vopnafirði.

Mynd: Sr. Solveig Lára tekur við miðanum úr hendi sr. Stefáns Más Gunnlaugssonar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.