Forsetahjónin heimsækja Fjarðabyggð

olafurogdorrit 0008 oliForseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú halda í þriggja daga heimsókn til Fjarðabyggðar mánudaginn 21. október. Í tilefni af heimsókninni verður að kvöldi mánudagsins haldin fjölskylduhátíð í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði.

Fyrsta dag heimsóknarinnar, mánudaginn 21. október, heimsækja forsetahjónin Nesskóla, Verkmenntaskóla Austurlands, Fjórðungssjúkrahúsið og Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað.

Þá verður haldið til Eskifjarðar þar sem þau hitta starfsmenn Eskju og Egersund, heimsækja Grunnskóla Eskifjarðar, skoða nýjan sýningarsal fyrir íslenska samtímalist í Dahlshúsi og heimsækja ferðaþjónustuna á Mjóeyri. Einnig tekur forseti þátt í málstofu um nýja norðrið sem haldin er í samvinnu við Austurbrú með þátttöku Norðurslóðanets Íslands.

Á fjölskylduhátíðinni um kvöldið verður margvíslegur tónlistarflutningur í boði heimamanna. Þar flytur forseti ávarp og afhendir hvatningu til ungra Íslendinga en hátíðin hefst klukkan 20:00 og eru allir velkomnir á hana; aðgangur er ókeypis.

Þriðjudaginn 22. október heimsækja forsetahjónin Grunnskóla Reyðarfjarðar og halda svo til Fáskrúðsfjarðar og heimsækja Skólamiðstöðina þar. Því næst kynna þau sér fyrirætlanir um uppbyggingu frönsku húsaþyrpingarinnar, heimsækja Gallerí Kolfreyju og Loðnuvinnsluna Fáskrúðsfirði.

Eftir hádegi fara forsetahjónin í Grunnskóla Stöðvarfjarðar, heimsækja Sköpunarmiðstöðina og sitja um kvöldið kvöldverð með bæjarfulltrúum í boði bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Miðvikudaginn 23. október lýkur heimsókn forseta Íslands í Fjarðabyggð með því að hann heimsækir fyrirtæki og stofnanir í Reyðarfirði og eru það Íslenska stríðsárasafnið, Slökkvilið Fjarðabyggðar og Alcoa Fjarðaál.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.