Handritshöfundur Wallanders semur spennuþætti sem teknir verða upp í Fjarðabyggð

reydarfjordur hofnKvikmyndafyrirtækið Pegasus, í samstarfi við Sky sjónvarpsstöðina og fleiri aðila, undirbýr nú tökur á nýrri spennuþáttaröð í Fjarðabyggð. Útitökur þáttanna verða að líkindum að mestu á Reyðarfirði. Talsmaður Pegasus segir heimamenn hafa tekið vel á móti kvikmyndagerðarmönnunum.

„Við erum bara að skoða staði og reyna að negla niður umfangið,“ segir Einar Sveinn Þórðarson frá Karlsskála en hann er einn af eigendum Pegasus. Austurfrétt náði tali af honum þar sem hann var nýlentur í Reykjavík eftir að hafa verið fyrir austan í morgun að skoða mögulega tökustaði.

„Við erum búnir að fara nokkrar vinnuferðir en erum bara að skoða og pæla hvaða staðir henti í hinar og þessar senur og hvar sé best að vera upp á skipulagið.“

Hann segir að kvikmyndatökuliðið hafi mest skoðað sig um á Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. „Tökustaðirnir eru ekki fastnegldir en við verðum örugglega mest á Reyðarfirði ef allt gengur upp.“

Þættirnir mun bera nafnið Fortitude og eru framleiddir fyrir sjónvarpsstöðvarnar Sky í Bretlandi og Starz í Bandaríkjunum. Í lýsingu á þáttunum kemur fram að Fortitude sé staðsettur á norðurslóðum og sé á meðal friðsömustu þorpa heims. Þar hafi aldrei verið framinn ofbeldisglæpur „fyrr en nú.“

Lögreglustjóri staðarins, Dan Anderssen að nafni, fær til rannsóknar hrottalegt morð á breskum vísindamanni sem skekur hið nána samfélag og ógnar framtíð þess. Honum til aðstoðar er sendur breski rannsóknarlögreglumaðurinn Milton Caldwell og eftir því sem fórnarlömbum morðingjans fjölgar bætast einnig við ástæður sem þeir hafa til að vantreysta hvor öðrum.

Handritshöfundur er Simon Donald sem unnið hefur til verðlauna fyrir handrit sín fyrir leikhús og sjónvarp í Bretlandi. Hann hefur síðustu ár verið meðal handritshöfunda að þáttunum um Wallander lögregluforingja sem er íslenskum sjónvarpsáhorfendum að góðu kunnur.

Ekki hefur enn verið tilkynnt um leikara í þáttunum en Einar segir að von sé á að það verði gert í nóvember eða desember. Tökur hefjist síðan í febrúar og standi með hléum fram í júní.

Einar segir að búast megi við að allt að 200 manns starfi við tökurnar meðan á þeim stendur. Reynt verði að kaupa sem mesta þjónustu af heimamönnum en flytja þurfi mikið af sérhæfðu starfsfólki austur.

„Við þurfum gríðarlega mikið af gistiplássi og síðan þarf að næra allan mannskapinn. Við gætum líka þurft iðnaðarmenn. Innisenurnar í þáttunum eru teknar upp úti í Englandi en útisenurnar á Austfjörðum. Það þarf að smíða veggi og horn á staðnum og vonandi getum við notað heimamenn í það.“

Einar segir að heimamenn hafi tekið sérlega vel á móti undirbúningsliðinu. „Við erum rosalega ánægð með móttökurnar, liðlegheitin og þægilegheitin. Þessi jákvæðni auðveldar okkur vinnuna.

Ef meira verður tekið upp á einum stað heldur en öðrum þá er það því það hentar betur inn í handritið en ekki af því að okkur líki betur við einn stað umfram annan.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.