Hví semur sá sem býr á hjara veraldar svo fjölbreytta tónlist?

bjarni rafn kjartansson muted 0007 webRaftónlistarmaðurinn Bjarni Rafn Kjartansson, sem notar listamannsnafnið Muted, fékk lofsamlega umfjöllun í netútgáfu landkynningarritsins Iceland Review um helgina. Blaðamaður ritsins segir einstakt hvernig einhver sem búi á hjara veraldar geti búið til svo fjölbreytta tónlist.

„Hann sendi mér bara póst og spurði hvort hann mætti taka viðtal við mig,“ segir Bjarni Rafn sem hafði ekki sjálfur lesið viðtalið þegar Austurfrétt hafði tal af honum í dag.

Tilefni viðtalsins er nýútkomin vínilplata hans Lizard on Ice. Hipp-hopp tónlist er ríkjandi á plötunni en Bjarni hefur spreytt sig á ýmsum tónlistarstefnum. Bjarni Rafn gefur plötuna út sjálfur en af henni eru aðeins til 100 eintök og eru þau tölusett. Hann segir að upplagið sé að verða búið.

„Það er svo auðvelt að gefa út geisladiska. Þetta var meiri áskorun. Ég er stoltari af þessu,“ segir Bjarni Rafn aðspurður um hvers vegna hann gefi út á vínil.

Nefna má að fylgiblað plötunnar er handskrifað, vinur hans teiknaði plötuumslagið og fjölskyldan hjálpað honum til að klára plötuna. „Við mamma röðuðum þessu saman,“ segir hann.

Bjarni er 25 ára Egilsstaðabúi en heldur til í Fellabæ og er að eigin sögn eini íbúinn í iðnaðarhverfi í bænum. Það veiti honum þann lúxus að geta búið til tónlist hvenær sem hann vilji án þess að trufla nokkurn mann. Í grein Iceland Review er talað um Bjarna Rafn sem „meistarann á Austfjörðum.“

Hann lýsir umhverfinu á Héraði sem veiti honum innblástur við tónlistarsköpunina. Úr Fellabænum sé stutt út í skóg þar sem hægt sé að njóta náttúrunnar. Bjarni segir sérstaklega gaman að búa á Héraði yfir sumarmánuðina þegar bærinn fyllist af skólafólki sem komi heim að vinna. Einmanalegra sé yfir veturinn en þá séu allar frístundir nýttar til að skapa tónlist.

„Ég hef aldrei lært á nein hljóðfæri þannig ég er bara að gera tilraunir með hljóð,“ er haft eftir honum í viðtalinu.

Hann segist ekki hafa verið nema tíu mínútur að hugsa sig um þegar hann valdi listamannsnafnið „Muted“ sem lýsir í raun hljóðleysi. Hann segist vera feiminn og þegar hann hafi verið að alast upp hafi hann verið sá eini í bænum sem þekkti „drum‘n‘bass“ tónlistarstefnuna.

Bjarni Rafn var meðal þeirra sem tóku þátt í uppsetningu Tilraunaleikhúss Austurlands á sýningunni Næturlífi í sumar. Hann er með tvær plötur í smíðum og leitar að útgefanda.

Tónlist hans er þegar byrjuð að vekja eftirtekt því hann er á leiðinni til Makedóníu í desember til að spila.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.