125 ára afmæli Alcoa fagnað í Fjarðaáli

alcoa 125ara motuneyti webHundrað tuttugu og fimm ár eru í dag liðin frá því að fyrsta álver Alcoa tók til starfa í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Af því tilefni fagnaði fyrirtækið tímamótunum á starfsstöðvum sínum um allan heim. Í afmælisveislunni í Fjarðaáli í dag var greint frá tveimur stórum verkefnum sem Samfélagsjóður Alcoa hefur styrkt með umtalsverðum hætti.

Annars vegar er um að ræða verkefni til eflingar almenningssamgangna á Austurlandi og hins vegar framkvæmdir við Jökulsá á Dal til að auka laxagöngu í ánni.

Samfélagssjóður Alcoa hefur styrkt Veiðifélag Jökulsár á Dal um 84 þúsund dollara, rúmar 10 milljónir króna, til uppbyggingar árinnar sem laxveiðiár. Unnið er að fjölgun laxa í ánni og kaupendum laxveiðileyfa, en markmiðið er ekki síður að stuðla að vernd Norður-Atlantshafslaxastofnsins, fjölgun ferðamanna og nýrra starfa á svæðinu.

Byggður hefur verið laxastigi gegnum steinboga í ánni og er fyrirhugað að leggja göngustíga og göngubrýr á svæðinu og koma fyrir fiskiteljara. Laxar ganga nú upp Jökuldalinn í töluverðu magni og veiddust 380 laxar í sumar, þar af um 50% ofan stigans. Sleppiskylda er enn í ánni, en stefnt er að því að gera Jöklu sjálfbæra sem laxveiðiá á næstu 10-15 árum.

Austurbrú hefur umsjón með framkvæmd samgönguverkefnisins á Austurlandi. Unnið er að því að bæta miðasölukerfi, setja upp strætóskýli og efla upplýsingagjöf og er markmiðið að fjölga strætófarþegum umtalsvert og draga um leið úr notkun einkabíla í landsfjórðungnum. Öll sveitarfélög á Austurlandi standa sameiginlega að verkefninu, sem Samfélagssjóður Alcoa hefur lagt lið með 66 þúsund dollara framlagi, um 8 milljónum króna.

Í afmælisveislunni hjá Fjarðaáli var ennfremur greint frá tveimur sjálfboðaliðaverkefnum á vegum starfsmanna fyrirtækisins, sem unnin voru í lok september. Á Neskaupstað var hjólastólaaðgengi bætt við þjónustuíbúðir fatlaðara við Bakkabakka og á Reyðarfirði var unnið að viðhaldsverkefnum í húsnæði félagsmiðstöðvar grunnskólans.

Í Fjarðaáli var starfsmönnum boðið upp á veislumat og afmælisköku í tilefni dagsins og afmælissöngurinn að sjálfsögðu sunginn. Þá skemmti uppistandarinn Ari Eldjárn starfsmönnum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.