Eiðagleði: Héraðsskólarnir opnuðu dyrnar að umheiminum

eidagledi 0004 webFyrrum skólastjóri Alþýðuskólans á Eiðum segir einstakt samfélag hafa ríkt innan gömlu héraðsskólanna þar sem unglingar hafi verið að læra á lífið. Gamlir Eiðanemar og aðrir velunnarar fögnuðu því nýverið að 130 ár eru liðin frá því að skólastarf hófst á staðnum fyrir skemmstu.

„Héraðsskólarnir opnuðu dyrnar að umheiminum. Þetta voru sérstök samfélög þar sem menn urðu að vera sjálfum sér nógir,“ sagði Kristinn Kristjánsson, fyrrverandi skólastjóri í hátíðarræðu.

Hann lýsti skólunum sem lokuðum samfélögum með skýrar reglur eins og að mega ekki hitta aðila utan skólans nema með leyfi skólastjóra. „Sjálfsagt voru þessar reglur setnar af reynslu.“

Ósköp eðlilegt ungt fólk en stundum svolítið óheppið

Menn komu að hausti og fóru ekki heim fyrr en að voru nema um jól og mögulega páska. Þó var undir hælinn lagt hvort menn komust heim.

„Þetta var ekki alltaf auðvelt. Sumir gáfust upp, aðrir þraukuðu en ég held að flestir hafi náð að aðlagast skólanum. Það stóðust ekki allar væntingar.

Refsing við broti á reglunum var gjarnan brottvikning í 1-2 vikur og það voru tvö brot sem skýlaus brottvikning var við: bruggun og neysla áfengis og næturlöng dvöl í herbergi aðila af gagnstæðu kyni.

Þetta voru engir brotaunglingar, ósköp eðlilegt ungt fólk en stundum svolítið óheppið, einkum þeir sem urðu fyrir því óláni að upp um þá komst.“

Hefði ekki komist heim án hjálpar nemandans

Það kom í hlut skólastjórans að koma hinum brotlega til síns heima í refsivistina. Það gekk þó ekki alltaf þrautalaust.

„Ég man eftir einni ferð að vetrarlagi í byl þar sem skóf í hjólförin. Bíllinn sat fastur og blessunarlega var strákurinn sem ég átti að skila heim til sín hraustur því hann þurfti út að ýta.

Við festum samt bílinn aftur og snérum við því við sáum ekki fram á að komast alla leið. Strákurinn þurfti alloft út að ýta á heimleiðinni og var orðinn nokkuð kaldur og hrakinn þegar við komum til baka. Ég þakkaði hins vegar fyrir að hafa ekki komið honum alla leið því hefði ekki komist hjálparlaust heim!“

Farið á bakvið skólastjórann

En þótt reglurnar væru skýrar lögðu menn ýmislegt á sig til að brjóta þær. Það virðast í mörgum tilfellum lífseigustu sögurnar frá Eiðum og skólastjórinn fyrrverandi deildi sinni hlið af þeim.

„Nemendur áttu það til að reyna að fara að bakvið mig. Það var eitt sinn sem nokkrir nemendur neðan af fjörðum í níunda bekk komu úr helgarleyfi með Chaplin filmu sem þeir höfðu fengið frá sjóara. Þeir fengu lánaða vél, sýndu myndina á herbergi uppi í risi og seldu aðgang.

Einu sinni ég að og þá hafði filman slitnað og allt var í volli. Ég bauð þeim aðstoð mína því ég hafði reynslu af svona filmum en þeir vildu hana ekki, töldu sig geta lagað þetta sjálfir. Ég fékk ekki að vita það fyrr en mörgum árum seinna að þeir hefðu fengið svokallaðar bláar myndir hjá sjóaranum!“

Það var líka reynt að tryggja að nemendur væru læstir inni þannig þeir kæmust ekki í burtu. Þeir virtust samt alltaf finna einhverjar smugur,“ sagði Kristinn og rétti upp masterlykil sem hann hafði eitt sinn hirt af laghentum nemanda.

Skýringin tekin góð og gild

Kristinn sagði skólastjóra linnulaust hafa þurft að berjast við ríkisvaldið til að fá peninga í rekstur og viðhald. Nokkurn tíma hafi til dæmis tekið að fá brunastiga á mötuneytishúsið. Þá notuðu nemendur hins vegar sjaldnast í neyð.

„Þá mátti ekki nota nema í neyð en til að koma í veg fyrir að það væri gert voru settar plasthettur á snerlana á neyðarútgöngunum. Það kom fyrir að nemendur ráku sig í þær og brotnuðu.

Það var einu sinni sem nemandi kom til mín eftir miðnætti brotinn á báðum höndum og sagðist hafa dottið fram úr rúminu sínu. Sú skýring var tekin góð og gild.“

130 nemendur lúffa fyrir skólastjóra

Kristinn, sem stýrði skólanum í átján ár, kvaðst þakklátur fyrir að tímann á Eiðum.

„Það var gefandi að starfa með því þróttmikla og heilbrigða fólki sem sótti hér skóla. Ég hefði viljað gera ýmislegt öðruvísi en ég gerði en það er almennt viðurkennt í svona heimavistarskóla að einn réði öllu og það var skólastjórinn.

Það var einu sinni hér á samstund sem nemendur vildu fá einhverju framgengt sem ég hafnaði. Einn kennarinn stóð þá upp og sagði fáránlegt að 130 nemendur lúffuðu gegn skólameistara. Þeir gætu hæglega tekið völdin í sínar hendur. Hann varð mjög undrandi þegar forsvarsmaður nemenda stóð upp og sagði að svoleiðis gengi ekki á slíkum stað.“

Njótum þess sem við minnumst úr fortíðinni

Alþýðuskólinn á Eiðum var sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1995. Skólahaldi á staðnum var hætt þremur árum síðar. Ýmsum hefur þótt starfsemin í gamla skólahúsnæðinu takmörkuð síðan þá.

„Það eru önnur viðhorf og sjónarmið sem gilda nú. Mörgum finnst húsunum illa viðhaldið og að hér ætti að vera meira líf en raun ber vitni. Þetta er samt eðlileg þróun. Viðhaldið varð dýrt og húsnæðið úreltist því erfitt var að samræma það kröfum nútímans. Við þurfum ekki að ergja okkur yfir því en njótum þess sem við minnumst úr fortíðinni.“

eidagledi 0002 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.