Stofutónleikar með Öddu Ingólfs á Egilsstöðum í kvöld

stofutonleikar odduTónlistarkonan Adda Ingólfs heldur stofutónleika í heimahúsi á Egilsstöðum í kvöld. Tilefnið er að kynna væntanlega breiðskífu hennar My brain E.P.

Platan er fyrsta plata Öddu og kemur út í 2013. Tónleikaferðin er farin til að safna fyrir lokaskrefunum í útgáfu disksins: fyrir hljómjöfnun, framleiðslu á disknum, umbúðum og hönnun en söfnunin fer fram í gegnum hópfjármögnunarvefinn Karolina Fund.

Adda hefur ferðast um landið á puttanum og komið við heima í stofu hjá vinum og vandamönnum og haldið tónleika í stofunni hjá þeim. Tónleikarnir í kvöld verða á heimili Sigurlaugar Gunnarsdóttur og Jóns Gunnars Axelssonar, Laufási 2 á Egilsstöðum og hefjast klukkan 20:00.

Adda er söngvaskáld sem hefur vakið athygli fyrir að vera gefandi flytjandi sem syngur frá hjartanu og talar til áheyrenda. Hún flytur frumsamin lög, með fulltingi systur sinnar, Sunnu Ingólfsdóttur sem raddar sönginn.

Tónlist Öddu má kalla vögguvísur til að vakna við. Hún einkennist oft af möntrukenndum og tregafullum gítarleik, en röddin er björt og mjúk, laglínur melódískar en textar þungir. Raddir Sunnu og Öddu hafa ólíka áferð en um leið er nær ómögulegt að þekkja þær í sundur, svo vel passa þær saman.

Adda hóf sólóferil árið 2009 en hefur starfað á tónlistarsviðinu mun lengur og á fjölbreytta sögu. Hún hefur upplifað (og lifað af) kvíðafullt en gefandi 13 ára klassískt píanónám, óbærilegt en magnað nám í raftónlist í Hollandi, einn æðislegan og ofvirkan vetur sem tónlistarkennari í Hallormsstað og tvo vetur sem ákafur meðlimur raftónlistarhljómsveitanna Spúnk og Big Band Brútal, en þær hljómsveitir gáfu út nokkur lög hvor, önnur á 10 tommu vínyl og hin á safndisk hjá Tilraunaeldhúsinu.

Platan My Brain E.P. (E.P. þýðir stutt plata) inniheldur fimm frumsamin lög, gítarleik, söng og bakraddir. Allar upptökurnar eru gerðar í einni töku, eins og um tónleika væri að ræða. Þannig var reynt að ná fram lífrænum karakter laganna án þess að hóstar, klapp og hávaði blandaðist inn í upptökurnar.

Frásögn frá ferðalagninu má lesa á blogmybrain.tumblr.com.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.