„Annnesjaperrar“ við skálavörslu: Myndir

skalavarsla 1
Mikið hefur verið gist á skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs nú í sumar. Félagið á og rekur sex skála en þar af einn, Sigurðarskála í Kverkfjöllum, í samvinnu við Ferðafélag Húsavíkur.
Tvo aðra skála félagsins á hálendinu er að finna í Egilsseli við Kollumúlavatn og í Geldingafelli. Félagið rekur síðan þrjá skála á svonefndum Víknaslóðum suður af Borgarfirði eystra. Eru þeir skálar á Klyppstað í Loðmundarfirði, í Breiðuvík og í Húsavík.

Að sögn Þórhalls Þorsteinssonar, formanns FF, eru það einkum þessir skálar sem hafa verið umsetnir í sumar og hefur aldrei verið meira bókað í þá. Einnig hefur verið þétt bókað Egilssel og Geldingafell og sumarið gengið afskaplega vel. Á sumrin eru skálaverðir starfandi í hverjum skála og eru það sjálfboðaliðar víða að sem koma og dvelja við skálavörslu, oftast viku í senn.

Austurfrétt átti fyrir skemmstu leið um Víknaslóðir og heilsaði upp á skálaverði. Voru það hjónin Sveinn H. Guðmarsson og Þórhildur Ólafsdóttir, fréttamenn á RÚV sem þá réðu ríkjum í Musterinu, húsnæði skálavarða sem stendur við skálann í Húsavík.

„Maður sækir bara um. Sendir inn erindi á skrifstofu Ferðafélagsins og kannar hvort það er eitthvað laust. Ef maður er mjög snemma í því getur maður jafnvel valið sér skála eða tímabil. Það er það sem við gerðum fyrir réttu ári síðan. Þá óskuðum við eftir því að fá að vera skálaverðir í Húsavík vikuna fyrir Bræðslu.“ segir Þórhildur aðspurð um hvernig standi á veru þeirra þarna.

„Við sáum fyrir okkur að það yrði gott að tengja svona skálavörslu við Bræðslu, en áttuðum okkur samt ekki á því að þessa viku eru einmitt mjög margir sem ætla að ganga líka þannig að þetta er annasamur tími fyrir skálaverði.“ segir Sveinn og það þarf ekkert að efast um þessi orð hans. Skálinn er fullbókaður þennan dag og sömuleiðis hefur hópur sett niður tjöld á bletti við hann.

Þetta er í fyrsta skipti sem þau taka að sér skálavörslu en Þórhildur upplýsir að þau hafi reynt að sækja um árið áður en þá verið seinna á ferðinni og á endanum ekki getað komist einu vikuna sem var laus. „Þá var bara laust helgina sem við giftum okkur og ég ákvað að gifta mig frekar heldur en að koma hingað í skálavörslu. En ég var samt ekki alveg viss! Ég hefði næstum verið til í að fresta brúðkaupinu“

En hvað er það sem heillar svona við að gerast skálavörður í sjálfboðavinnu? „Okkur finnst báðum mjög gaman að vera úti í náttúrunni, göngum mikið og höfum t.a.m. verið töluvert á Hornströndum. Ætli við séum ekki bara dálitlir annnesjaperrar.“ segir Sveinn. „Það eru margir sem leigja sumarhús í viku. Við förum svipaða leið, en samt með smá fléttu“. Þórhildur tekur undir þetta. „Við höfum ekki mikla þörf fyrir nútíma þægindi í fríinu“.

Hún segir starfið fela ýmislegt í sér. Skálaverðir taka á móti og kveðja gesti, innheimta greiðslu fyrir gistingu og tjaldsvæði. Þó gestum skálanna beri að þrífa eftir sig sjálfa geta smávægileg þrif og ýmislegt umstang komið í hlut skálavarða. „Og síðan að bjóða upp á glaðlega viðveru“. „Já og að draga íslenska fánann að húni og taka hann niður aftur á lögboðnum tíma.“ bætir Sveinn við og tekur það hlutverk sitt augljóslega alvarlega.

Þeim finnst báðum fyrirkomulag skálavörslunnar vera skemmtilegt og sniðug leið til þess að halda skálunum mönnuðum og passa upp á ferðafólkið.

„Miðað við hvað er mikil ásókn í þetta erum við ekki einu annnesjaperrarnir sem erum á móti nútíma þægindum.“


skalavarsla 3

skalavarsla 4
skalavarsla 2

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.