Beið í klukkutíma eftir að hitta John Grant: Einstaklega vingjarnlegur náungi

braedslan 2103 0412 webEin heitasta ósk Hjörvars Óla Sigurðssonar, aðdáanda bandaríska tónlistarmannsins Johns Grants, rættist á tónlistarhátíðinni Bræðslunni þegar honum bauðst að fara baksviðs og hitta átrúnaðargoðið. Hann beið fyrir utan í klukkustund en biðin reyndist þess virði.

„Margir textanna hans fjalla um þunglyndi, ástarsorg og neikvæð málefni en það kom mér skemmtilega á óvart að hitta hann og sjá hvað hann er vingjarnlegur. Maður fær aðra mynd af honum í gegnum tónlistina hans,“ segir Hjörvar Óli.

Hjörvar segist fyrst og fremst hafa komið á Bræðsluna til að hlusta á Grant. Þegar hann var farinn af sviðinu ákvað Hjörvar að reyna að hitta á hann. Þar sem hann hafði ekki aðgang baksviðs beið hann fyrir utan og vonaði það besta.

Það vildi Hörvari til happs að Magni Ásgeirsson, einn af skipuleggjendum Bræðslunnar er frændi hans og sá Hjörvar fyrir utan.

„Hann segist ætla að gera eitthvað, fer inn og kemur skömmu síðar og dregur mig inn og svo kemur John.. allt sem ég hélt að myndi gerast gerðist,“ segir Hjörvar Óli og hlær.

Hjörvar og Grant spjölluðu saman nokkra stund og Grant áritaði plötur fyrir hann. Meðal annars fylgdi kveðja á þýsku. „Ég sagði honum að ég hefði verið í skiptinámi í Þýskalandi. Við höfum báðir mikinn áhuga á tungumálum og hann talar meðal annars þýsku.“

Hjörvar segist fyrst hafa kynnst Grant þegar platan hans, Queen of Denmark, var plata vikunnar á Rás 2.

„Þá var ég að vinna í frystihúsi og var alltaf með útvarpið í eyrunum. Ég vissi ekkert um þennan mann en lagið Marz var töluvert spilað og ég dýrkaði það. Textinn er svo skemmtilega sturlaður. Þarna var orðum sem létu mér líða vel raðað saman. Lögin voru líka frábærlega uppbyggð.

Svo var það söngurinn sjálfur. Ég hlustaði mikið á Bítlana en eitt af því sem pirraði mig við þá var að ég gat ekki sungið með lögunum þeirra í réttri tónhæð því ég er barítón. Grant fer hins vegar aldrei út af mínu raddsviði og því get ég alltaf sungið með.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.