John Grant: Mig langar að koma strax aftur á næsta ári

braedslan 2103 0180 webBandaríski tónlistarmaðurinn John Grant virtist kunna vel við sig á tónlistarhátíðinni Bræðslunni sem haldin var á Borgarfirði fyrir skemmstu. John skemmti áhorfendum með íslenskuslettum en hann er að læra málið og segist hafa tekið miklu ástfóstri við það og landið. Hann var ánægður þegar hann kom af sviðinu á Bræðslunni.

„Ég hef aldrei spilað á stað sem þessum áður. Ég get ekki borið hann saman við neinn annan. Ég vona að ég fái að koma strax aftur á næsta ári. Áhorfendur voru mjög hlýlegir og tóku vel á móti mér í kvöld,“ sagði Grant eftir tónleikana.

„Það var búið að segja mér að staðurinn væri fallegur en ég var samt sleginn yfir fegurðinni. Það var töfrandi sjón að sjá þokuna læðast inn fjörðinn eftir kvöldmatinn.“

Í fyrra var þrálátur orðrómur um að Grant myndi troða upp á Bræðslunni en það gekk ekki upp. „Við reyndum að láta það ganga upp en það rakst á við eitthvað annað í dagskránni hjá mér eða þetta snérist um peninga eða eitthvað annað álíka heimskulegt. Þetta var alfarið í höndunum á umboðsmanninum mínum. Ég var svekktur yfir að það gekk ekki eftir en er feginn að hafa getað komið í ár.“

Grant hefur samt áður komið fram á tónleikum á Austfjörðum því hann spilaði á Seyðisfirði í fyrra. „Ég held líka upp á Seyðisfjörð sem er einn af fyrstu stöðunum sem ég heimsótti á Íslandi. Eyþór (Gunnarsson, hljómborðsleikari) og Ellen (Kristjánsdóttir, söngkona) buðu mér með sér yfir páska. Þau eru eiginlega fjölskylda mín á Íslandi. Sigga dóttir þeirra og KK (bróðir Ellenar) héldu litla tónleika í ferðinni og ég söng nokkur lög. KK tróð líka upp. Mér fannst ótrúlegt að hlusta á þá.“

Grant er bandarískur en er mun vinsælli sem tónlistarmaður í Evrópu, sérstaklega Bretlandi þar sem plötur hans hafa fengið frábærar viðtökur. Hann hefur tekið sérstöku ástfóstri við Ísland og tók upp stóran hluta nýjustu plötu sinnar, Pale Green Ghost, hérlendis með íslenskum tónlistarmönnum.

„Ég finn fyrir létti og finnst ég vera kominn heim þegar þotan lendir á brautinni í Keflavík eftir tónleikaferð. Mér finnst ég endurnærður eftir að hafa keyrt í gegnum hraunið.“

Grant hefur sérstakan áhuga á tungumálum og hefur lagt sig mikið fram við að læra íslensku. Á íslensku segir hann okkur að hann sé farinn að komast inn í „veika beygingu og sterka beyging lýsingarorða og viðtengingarhátt“ og allt hitt sem sé svo flókið.

„Það er ýmislegt sem ég á enn eftir að læra áður en ég get farið að tala það en mér finnst mér fara fram og ég elska málið.“

Meðal tónlistarmannanna sem með honum spila er austfirski trommuleikarinn Kristinn Snær Agnarsson.

„Hann hafði áhuga á tónlistinni minni, gat spilað allt sem ég bað hann um og gat gert hluti sem mér duttu ekki í hug. Hann reynir líka á mig og það skiptir fullt eins málið,“ segir Grant um ástæður þess að hann bauð Kidda í bandið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.