Ormsteiti hefst á morgun: Tuttugu ára afmælishátíð

ormsteiti dagur1 0034 webHéraðshátíðin Ormsteiti hefst á morgun og stendur næstu tíu daga. Hátíðin verður með veglegra móti í ár enda er um að ræða tuttugu ára afmælishátíð. Meðal hápunkta fyrri helgarinnar eru hverfahátíðir, karnival og hverfaleika, hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn, móttöku nýbúa, fjölskylduhátíð í Selskógi og fegurðarsamkeppni gæludýra.

Hátíðin hefst á föstudag með leik Hattar og KR á Vilhjálmsvelli í fyrsti deild kvenna í knattspyrnu en flautað verður til hans klukkan 17:30. Um kvöldið fer einnig fram brenniboltakeppni á vellinum.

Formleg setning verður á laugardagskvöld með hverfahátíðinni. Íbúar og gestir hittast og grilla saman en um kvöldmatarleytið marsera íbúar hverfanna í fylkingum að Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum þar sem litskrúðugt karnival tekur á móti mönnum undir dynjandi tónlist. Á vellinum er Ormsteitið sett formlega og þar fara svo fram Hverfaleikarnir, þar sem keppt er um farandbikar. Hverfin hafa öll sinn sérstaka lit og verða veitt verðlaun fyrir flottustu skreytingarnar og búningana.

Á laugardaginn er einnig hin árlega Ormaveisla í Egilsstaðavík og formleg móttaka sveitarfélagsins á nýbúum Fljótsdalshéraðs fer fram í garðinum við Gistihúsið á Egilsstöðum.

Eins er bíla-, hjóla- og tækjasýning í miðbæ Egilsstaða, tónleikarnir Gamla hverfið í Egilsstaðakirkju og markaðurinn sem verður alla daga hátíðarinnar í tjaldi í miðbænum.

Á sunnudeginum er fjölskyldudagskrá í Selskógi við Egilsstaði. Upplagt er að pakka niður nesti í körfu og fara í lautarferð í skóginn. Dagskráin byrjar með ratleik, þar sem leitað er að gulli Ormsins. Síðan fer fram skemmtidagskrá á sviði útileikhússins. Um kvöldið býður leikfélagið upp á Rómantík í rökkrinu, þar sem nokkrir einstaklingar lesa uppáhalds ljóðin sín fyrir þá sem tylla sér hjá þeim í skóginum. Þennan dag er einnig skógargleði og markaður í nýopnuðu skógarsvæði á Vallanesi.

Mánudaginn 12. ágúst fer fram fegurðarsamkeppni gæludýra og markaðsdagur krakka. Í fegurðarsamkeppninni er keppt í flokkum katta, hunda, fiðurfénaðar og blönduðum flokki, og veitt er viðurkenning fyrir frumlegasta gæludýrið. Þennan daga skemmta einnig Sigga Beinteins og María Björk börnum sem fullorðnum.

Nánari upplýsingar um Ormsteiti er á vefsíðunni www.ormsteiti.is.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.