Sýning í Dahlshúsi - Mikilvægt að færa samtímalist út um landið

IMG 7977Á dögunum opnaði í Dahlshúsi á Eskifirði sýning tveggja af merkustu myndlistarmönnum þjóðarinnar, Kristjáns Guðmundssonar og Árna Páls Jóhannssonar. Opnunin fór fram í blíðskaparveðri að viðstöddu fjölmenni.
Dahlshús var byggt árið 1880 en núverandi eigandi þess, Jens Garðar Helgason, hefur gert það upp í samráði við Minjastofnun og fengið húsinu nýtt hlutverk sem sýningarrými. Þar er stefnt að því að hýsa árlegar sýningar á samtímalist næstu sumur.

Halldór Björn Runólfsson safnstjóri Listasafns Íslands opnaði sýninguna formlega og hélt stutt ávarp. Að hans mati er mikilvægt að færa samtímalist út um landið.

„Ég tel að þetta hafi gríðarlegt gildi fyrir svo margra hluta sakir. Bæði held ég að þetta staðfesti fyrir fólk úti á landsbyggðinni að það getur alveg jafnt við þéttbýlli staði sýnt og tekið þátt í uppbyggingu menningar á Íslandi. Síðan er þetta líka greinilega að verða meiri og meiri hluti af því sem við bjóðum erlendum gestum upp á að njóta í heimsóknum þeirra hingað til lands.“

Að sögn Halldórs er víða um heim að finna þorp og bæi sem kunna að láta lítið yfir sér á ytra byrðinu en eru orðin heimsþekkt kennimerki fyrir að hafa laðað til sín menningarverðmæti með þessum hætti.

„Frakkar riðu á vaðið með þetta. Þar var að finna gömul þorp sem voru að tæmast og þar sem ekkert var lengur til staðar. Landbúnaður á fallanda fæti og fleira í þeim dúr. Þar var kannski innréttuð gömul kirkja sem búið var að afhelga og sett þar upp í staðinn söfn og þetta eru síðan orðnar menningarmiðstöðvar sem allur heimurinn tekur eftir. Ég vil nú ekki segja að Eskifjörður sé á fallanda fæti eða að hér sé að tapast eitthvað af grundvallaratvinnuvegum en þetta er greinilega staður sem hefur getu til að spýta í lófana og styðja við þessa skapandi atvinnugrein. Hún getur á móti skipt miklu máli þegar kemur að ímynd bæjarins.“

Halldór telur að opinberir aðilar ættu í auknum mæli að gefa menningu og listum gaum sem tæki til að framkvæma byggðastefnu.

„Ég held að það skipti mjög miklu máli að ríkisvaldið og sveitarfélögin sjái ljósið í þessum efnum. Með því að styðja við listirnar eru menn að stuðla að því að fólk vilji áfram vera á litlum og meðalstórum stöðum og þetta heftir þetta einstreymi sem verið hefur á undanförnum áratugum, að allir þurfi að fara suður því það er ekkert við að vera í heimabyggðinni. Þetta skal vera það sem skiptir máli í framtíðinni.“

Sýningin í Dahlshúsi er opin til 6. ágúst nk. frá kl. 15-18 virka daga og kl 14-16 um helgar.

Myndir: Stefán Bogi


IMG 7965IMG 7967IMG 7968IMG 7973IMG 7980IMG 7981IMG 7984IMG 7988IMG 7992IMG 7993IMG 7995IMG 7986IMG 7976IMG 7960IMG 7990

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.