Alþjóðlegar ungmennabúðir LIONS – Bjartar nætur/Bright Nights 2013

lions budir 1Dagana 11. - 25. júlí stóðu Lionsklúbburinn Múli og Lionsklúbbur Seyðisfjarðar sameiginlega að því verkefni að skipuleggja og reka ungmennabúðir fyrir 18 ungmenni, á aldrinum 17-20 ára, frá 16 Evópulöndum.
Búðirnar voru staðsettar í Brúarásskóla í Jökulsárhlíð. Þar höfðu ungmennin samastað á milli þess sem þau ferðuðust um Austurland eftir skipulagðri dagskrá sem þeim hafði verið kynnt að mestu áður en þau komu til landsins. Fjölbreytnin var höfð að leiðarljósi og farið var vítt og breytt um fjórðunginn.

Byrjað var á því að sækja Egilsstaði heim þar sem fyrirtæki voru heimsótt og Minjasafn Austurlands skoðað. Einn daginn var farið um Velli og Skóga, stoppað í Hallormsstaðaskógi, þaðan var ekið í Fljótsdal, áð á Skriðuklaustri og Snæfellsstofa heimsótt. Haldið var í Snæfellsskála þar sem farið var í kvöldgöngu og síðan gist þar. Daginn eftir var ekið yfir Kárahnjúkastíflu að Sænautaseli þar sem notið var veitinga og vitjað um silunganet, þaðan var ekið í Klaustursel og starfsemin þar skoðuð. Farið var í skoðunarferð um Tunguna þar sem farið var m.a. á hestbak í Húsey og kúabúið á Hallfreðarstöðum skoðað. Sá dagur endaði með grillveislu í Tungubúð.

Ungmennin dvöldu tvo daga í Skálanesi þar sem þau gistu eina nótt og fengu fræðslu um það sem fyrir augun bar og gerðu þar ýmislegt sér til skemmtunar.
Borgarfjörður eystri var heimsóttur, í leiðinni gengið í Stapavík og þaðan um Gönguskarð til Njarðvíkur. Síðan var haldið til Loðmundarfjarðar þar sem gist var eina nótt og siglt til Seyðisfjarðar daginn eftir. Farin var skoðunarferð um aldamótabæinn Seyðisfjörð og hlýtt á lokatónleika LUNGA hátíðarinnar.

Lionsklúbbur Eskifjarðar sá um ungmennin einn dag og hafði ofan af fyrir þeim á ýmsan hátt, m.a. var silfurbergsnáman á Helgustöðum skoðuð. Lionsklúbburinn Svanur á Breiðdalsvík og Lionsklúbbur Djúpavogs aðstoðuðu einnig með því að taka ungmennin að sér einn dag og heimsóttu þau þá meðal annars Steinasafn Petru á Stöðvarfirði.

Einstaklega skemmtilegt var að kynnast þessu unga fólki sem kom úr ólíkum samfélögum en myndaði fljótt sterkan og samheldinn hóp. Seinasta daginn fengu þátttakendur afhentan bol með áprentuðu merki búðanna sem hannað var af Kristínu Vigfúsdóttur. Ekki var annað að heyra á þeim, er þau kvöddu Austurland, en að þau væru einstaklega ánægð með dvölina hér.

Við lionsfélagar í Múla og á Seyðisfirði viljum þakka öllum þeim aðilum sem lögðu okkur lið við þetta verkefni kærlega fyrir margvíslega aðstoð.

Myndir: David Csaba
lions budir 2lions budir 3lions budir 4

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.