Djammsögur með dýpt: Næturlíf í Sláturhúsinu á Egilsstöðum

tilraunaleikhus webÞegar farið er á sýningu hjá „tilraunaleikhúsi“ ætti maður ekki að verða hissa á að um óhefðbundið verk er að ræða, né undrast að sýningin byrjar á því að áhorfendur eru leiddir út úr leikhúsinu. En maður gerir það nú samt.

Útivistin stóð þó ekki lengi yfir og áhorfendur voru leiddir inn í Frystiklefann gegnum annan inngang en flestir eiga að venjast. Ennþá var maður ekki alveg viss hvort sýningin væri byrjuð eða ekki. Undirritaður var í hrókasamræðum við annan leikhúsgest þegar „gínan“ við hliðina á mér hreyfði sig! Jú, sýningin var byrjuð.

Að mínu viti er Næturlíf ekki leikrit. Ef spurt er um persónur og leikendur þá er eiginlega hvorugt að finna. Pétur er Pétur og Brogan er Brogan, Hjálmar er refur (einhverra hluta vegna) og Bjarni Rafn er í olíustakk. Meðan á sýningunni stendur spjalla listamennirnir við áhorfendur m.a. um uppsetninguna sjálfa eða verkefnið eins og þau orða það. En gott og vel, þetta er a.m.k. leikhúsverk og kannski ætti maður að einbeita sér meira að því hvernig þetta er en hvað þetta er.

Í sýningunni er varpað upp myndum og minningum leikaranna af djammi í gegnum tíðina. Þetta hljómar kannski ekki neitt svakalega spennandi, en það verður það eftir því sem líður á. Skemmtanalíf gegnir sennilega stærra hlutverki í lífi okkar flestra en við gerum okkur grein fyrir. Þar eiga sér stað merkileg félagsleg samskipti og þar gilda önnur lögmál en frá degi til dags. Við högum okkur öðruvísi á djamminu eða í partýjum en við gerum annars. Það er þetta sem manni finnst leikhópurinn vera að rannsaka með þessari sýningu og það er vel þess virði að gera það.

Eins og í flestum sýningum er meira um spurningar en bein svör. Sýningin fór frekar hægt af stað og virkaði svolítið yfirborðskennd á fyrstu metrunum en síðan fór maður að upplifa meira kjöt á beinunum eftir hana miðja og heildarupplifunin að sýningu lokinni var mjög jákvæð.

Sviðsmyndin og uppsetning öll er bráðskemmtileg. Frystiklefinn í Sláturhúsinu sannar enn gildi sitt sem rými til listsköpunar. Það er ómetanlegt að hafa til taks rými eins og þetta sem listamenn geta eiginlega gert það sem þeim sýnist við, og þá möguleika notfærir leikhópurinn sér vel til að skapa öðruvísi upplifun fyrir gesti. Leikmyndin er sett saman af hinu og þessu dóti en er greinilega úthugsuð og hjálpar til við að styrkja upplifun áhorfenda.

Kannski er það vegna þess að ég vissi svo lítið um hann fyrir, en að sumu leyti þykir mér Bjarni Rafn Kjartansson raftónlistarmaður vera stjarna sýningarinnar. Þarna er augljóslega frábær tónlistarmaður á ferðinni og þó ég sé staðfastlega á móti því að vera aðdáandi raftónlistar gaf Bjarni mér engan séns á öðru akkúrat þarna og þá.

Pétur Ármannsson á mjög flotta spretti sem sýna manni hvað hann getur þegar hann beitir sér en í heildina tekið hefði mátt reyna meira á hann. Brogan Davison hefur einkennilegan hæfileika til að halda manni hugföngnum með einfaldri frásögn og nær þannig mjög góðri tengingu við áhorfendur, sem er athyglisvert í ljósi þess að hún er raunar ekki leikari heldur dansari að upplagi.

Hittir sýningin algjörlega í mark? Nei, kannski ekki. En hún er skemmtileg, frumleg og í sjálfu sér magnað að fylgjast með þessu unga og efnilega listafólki að störfum. Þau hefðu getað gert margt verra í sumar en að framkvæma þetta verkefni.

Ég mæli heils hugar með því að fólk noti tækifærið og sjái þau meðan að tækifæri gefst.

Hér má sjá heimasíðu TA og hér er facebook-síða leikhópsins.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.