Nei, nei. Þakka þér!

sigurdur ingolfssonDr. Sigurður Ingólfsson skáld og ritstjóri sendi nýverið frá sér sína sjöundu ljóðabók sem nefnist Ég þakka. Í bókinni er að finna 52 þakkarljóð og er bókin myndskreytt af skáldinu sjálfu sem er frumraun hans á því sviði.

Það er rétt að byrja umfjöllun um bókina á því að segja strax að Sigurður Ingólfsson er mjög, mjög gott ljóðskáld. Ég hef á tilfinningunni að þetta sé ekki endilega öllum ljóst sem þekkja aðeins lauslega til mannsins og skáldsins. En ég er tilbúinn að standa við það hvar og hvenær sem er að hann er ekki bara gott heldur eiginlega alveg frábært skáld með einstaklega góð tök á formi, anda og stíl.

Til að rökstyðja þetta ætti að nægja að benda á síðustu ljóðabók Sigurðar, Dúett sem út kom árið 2008. Dúett er sonnettusveigur. Fyrir þá sem það ekki vita er sonnettusveigur ljóðabálkur sem samanstendur af fimmtán sonnettum. Hver sonnetta er fjórtán línur og í sveignum byrjar hver þeirra á lokalínu þeirrar næstu á undan. Lokasonnettan samanstendur síðan af upphafslínu allra hinna fjórtán og á jafnframt að draga saman efni sveigsins í heild.

Það er einfaldlega ekki á allra færi að gera þetta og hvað þá vel. En Dúett er einstök bók, myndskreytt af Ólöfu Björk Bragadóttur myndlistarkonu. Sannkallað stórvirki sem því miður er illfáanlegt og full ástæða til að gefa út í nýju upplagi.

En þetta var léttur útúrdúr í umfjöllun um aðra og annarskonar bók. Í Ég þakka heldur Sigurður sem fyrr tryggð við hefðbundið form í ljóðagerð og gerir það vel. Bókin sjálf er öll fremur lágstemmd, gefin út í fallegri hvítri kápu með einfaldar pennateikningar höfundar sem myndskraut. Þetta er í góðu samræmi við innihald bókarinnar en ljóðin eru einföld að gerð, stutt og einlæg.

Það liggur greinilega djúp trúarsannfæring að baki verkinu og höfundur er heldur ekkert að fela það, m.a. skrifar Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti formála bókarinnar. Einnig rifjar Sigurður upp í bæklingi sem gerður var í tilefni útgáfunnar minningar sínar frá því þegar hann var sem kornungur drengur nærri því orðinn úti. Hann var að eigin sögn búinn að sætta sig við dauðann, en fékk nýtt líf og þakklætið fyrir það hefur hann reynt að varðveita og skilar því nú frá sér, ásamt öðrum þakkarefnum ævi sinnar til þessa, í gegnum ljóðin 52.

Sigurður segir raunar á öðrum stað að með bókinni sé hann að miðla „hluta af trúarsannfæringu sinni“, sem er eðlilegt því að trúarleg sannfæring hvers og eins er flókið og persónulegt fyrirbæri sem ekki er hægt að reikna með að rúmist innan ramma einnar lítillar ljóðabókar. Fyrir vikið upplifir maður heldur ekki lestur hennar sem einhverskonar trúboð, heldur fremur sem fallega lofgjörð manns sem engu þröngvar upp á neinn en býður hverjum sem vill að taka þátt.

Ljóðin eru jafn mörg og vikurnar í árinu. Það kemur hvergi fram að það sé hugsunin að baki fjöldanum en ósjálfrátt setur maður bókina samt í þetta samhengi. Það leiðir mann kannski að því eina sem kallast getur galli á verkinu. Á stundum hefur maður við lesturinn á tilfinningunnni að það hafi verið stefnt að því marki að ljóðin yrðu svona mörg.

Þau eru að mínu mati misgóð, aldrei nokkurn tíma léleg en hitta mann misvel fyrir. Þó skal auðvitað ekki útilokað að persónuleg upplifun lesandans ráði því við hvað hann tengir og það sem einum þyki gott þyki öðrum lakara. Það er reyndar nánast öruggt að svo er.

V

Ég þakka
fyrir þig
í hjarta mínu

            og þigg
            þann fjársjóð

innst í
mínu hjarta.

            Því allt
            sem gefur þú
            með brosi þínu

Er það sem
gerir eilífðina
bjarta.

Vegna þess sem ég hef áður sagt held ég því að Ég þakka sé, reyndar eins og svo margar ljóðabækur, ekki vel til þess fallin að lesa spjalda á milli í einni setu. Ég mæli frekar með því að láta hana liggja á rólegum stað þar sem setjast má niður í næði og lesa í einrúmi eitt eða tvö ljóð. Velta fyrir sér orðunum, merkingunni og tengja við það sem í þeim er að finna.

Þannig er best að njóta þess hvernig Sigurður Ingólfsson veitir okkur örlitla innsýn í lífsskoðun sína og þakklæti til heimsins. Fyrir það á hann allar þakkir skyldar.

Mynd: Rut Ingólfsdóttir

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.