Uppselt á Bræðsluna: Ágætt að vera búinn að selja þessa miða

askell heidar asgeirssonUppselt varð í forsölu á Bræðslutónleikana á rúmum tveimur sólarhringum. Miðarnir hafa aldrei runnið hraðar út. Til stendur að gera rannsókn á viðhorfi Borgfirðinga til hátíðarinnar í sumar til að meta hvernig eigi að þróa hana áfram.

Miðarnir sem settir voru í forsölu voru uppurnir um miðnætti á laugardag en byrjað var að selja á fimmtudagsmorgun. Þá strax varð ljóst að miðasalan gekk óvenju hratt.

„Venjulega höfum við selt 100 miða fyrsta daginn en nú gerðist eitthvað en ég veit ekki hvað,“ sagði Áskell Heiðar Ásgeirsson, bræðslustjóri, þegar hann bauð sveitungum sínum í vöfflukaffi í Bræðslunni í hádeginu á föstudag til að kynna hátíðina í ár.

Enginn Borgfirðingur búinn að kaupa

„Ég hef aldrei séð svona miðasölu en það er svo sem ágætt að vera búinn að selja þessa miða. Það sem hefur samt ekki breyst – og breytist vonandi aldrei – er að ekki einn einasti Borgfirðingur er búinn að kaupa sér miða og ekki einn einasti frændi minn heldur.

Við gerum samt ráð fyrir því og setjum ekki allan kvótann í forsölu. Það er því óþarfi að örvænta.“

Hver er upplifun Borgfirðinga af hátíðinni?

Í vöfflukaffinu kynnti Áskell Heiðar rannsókn sem hann hyggst gera næsta sumar og nýta í háskólanámi sínu, á viðhorfum heimamanna og gesta til Bræðsluhátíðarinnar. Niðurstöðurnar eiga einnig að verða til þess að efla hátíðina.

„Markmiðið er að hún verði hér áfram einhver ár í viðbót. Á þessu landi höfum við oft séð hátíðir fara upp með miklum látum, gríðarlegum fólksfjölda og síðan hratt niður aftur. Ég vil að hátíðin hér þróist í sátt og samlyndi við íbúa.

Þess vegna viljum við fá að vita hver upplifun ykkar er. Er hún jákvæð eða neikvæð? Eru gestirnir átroðningur eða bara gleði? Hversu marga gesti þolir fjörðurinn? Hversu marga gesti þolið þið?“

Ekki markmiðið að halda stórt unglingapartý

Miðað við tölur úr miðasölunni í ár búa rúm 40% þeirra sem þegar hafa keypt miða í Reykjavík. Akureyringar og Egilsstaðabúar fylgja þar á eftir sem helstu stuðningsmenn Bræðslunnar.

„Hversu margir þessara gesta tengjast Borgarfirði einhvern veginn? Almennt teljum við það betri gesti sem tengjast Borgarfirði á einn eða annan hátt því þeir séu ekki eins líklegir til að gera einhvern skandal.“

Þá eru miðakaupendurnir flestir á aldrinum 26-40 ára. Þannig hefur það verið alla tíð.

„Unglingar eru yndislegir ef þeir eru einhvers staðar annars staðar þessa helgi. Staðurinn ræður ekki við mörg hundruð manna unglingahátíð og það hefur heldur aldrei vakað fyrir okkur að búa til slíka hátíð.

Í fyrra voru fleiri eldri en 65 ára sem keyptu miða heldur en yngri en átján ára. Auðvitað viljum við hafa allan aldur en það er alveg skýrt að aldurinn 25-40 ára er aldurinn sem við fáum.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.