List án landamæra í Sláturhúsinu

list an landamaera 1Það var margt um manninn og kenndi margra grasa í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í gær þegar haldin var dagskrá sem hluti af hátíðinni List án landamæra. Markmið hátíðarinnar að brjóta niður múra og landamæri við og með listsköpun.

Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Kór skipaður leikskólabörnum af leikskólanum Tjarnarskógi, félögum úr kór eldri borgara og starfsfólki Stólpa, hæfingar og iðju fluttu lagið Ég á líf. Þá fluttu ungir nemendur úr Fellaskóla þjóðlega tóna við vísur Hákonar Aðalsteinssonar og fimm efnilegir gítar- og bassaleikarar úr Tónlistarskólanum á Egilsstöðum fluttu saman lagið Kvaðning með hljómsveitinni Skálmöld.

Á veggjum gat að líta listsköpun fjölmargra austfirskra listamanna, svo sem Sigrúnar Ragnarsdóttur, Sunnu Ross, Róberts Jónssonar og Arons Kale. Þá voru einnig sýnd verk unnin af nemendum á starfsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum, starfsfólki Stólpa og þátttakendum í starfi Ásheima. Allir þessir hópar hafa notið leiðsagnar Lóu Bjarkar Bragadóttur myndlistakonu og einnig var til sýnis afrakstur listsmiðju sem hún gekkst fyrir um liðna helgi þar sem unnið var úr skógarafurðum.

Leirmunir úr samstarfsverkefni leirlistakonunnar Anne Kampp og Stólpa, Bollinn minn, voru til sýnis ásamt munum sem unnir voru af nemendum á leikskólanum Tjarnarskógi, þar sem viðfangsefnið voru árstíðirnar.

Flutt var hljóðverk eftir Daníel Björnsson sem hann vann undir handleiðslu listamannanna Elvars Más Kjartanssonar og Konrads Korabiewski. Þá var einnig sýnd stuttmyndin Nátttröllið sem unnin var af nemendum á starfsbraut ME, þeim Jónínu Báru Benediktsdóttur, Aroni Fannari Skarphéðinssyni og Matthíasi Þór Sverrissyni. Sá síðast nefndi var leikstjóri myndarinnar og sinnti einnig störfum kynnis á dagskránni í Sláturhúsinu ásamt skáldkonunni Ingunni Snædal.

Þrjú skáld af Héraði lásu upp ljóð, þau Sigurður Ingólfsson, Steinunn Rut Friðriksdóttir og Stefán Bogi Sveinsson. Þau eru í hópi skálda sem munu í sumar prýða veggi á Egilsstöðum með verkum sínum sem hluti af verkefninu Ljóð á vegg. Sigurður Eymundsson lék á harmonikku og Arnar Warén Halldórsson söng og lék á gítar frumsamið lag.

Austurfrétt var á staðnum í dag og náði nokkrum myndum af stemmingunni.
list an landamaera 6
list an landamaera 5
list an landamaera 4
list an landamaera 3
list an landamaera 2

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.