„Minn veikleiki er sköllóttur, skeggjaður maður á áttræðisaldri"

telma torshamar10Draumur Telmu Tórshamar rættist í haust þegar hún fór til Bandaríkjanna og var viðstödd tökur af þætti dr. Phil og heimsótti Alcatraz-fangelsið.

Telma, sem er 28 ára gömul, hefur verið viðloðandi Seyðisfjörð frá því hún kom þangað fyrst árið 2007. Hún lýkur námi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands í vor og vinnur við aðhlynningu á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði með skólanum.

Tilurð Bandaríkjaferðar Telmu er sú að vinkona hennar, Herdís Sveinbjörnsdóttir, var „au-pair" í Washington D.C. og í sameiningu ákváðu þær að tilvalið væri að hittast þar og ferðast saman um Bandaríkin.

„Við tók margra mánaða skipulagsvinna, hvert ætti að fara og hvað ætti að skoða. Það eina sem ég fór fram á var að við myndum reyna að komast í stúdíó hjá dr. Phil og heimsækja Alcatraz-fangelsið en með því fengi ég að sameina tvö af mínum helstu blætum," segir Telma.

„Ég flaug til Baltimore, alein í fyrsta skipti í Ameríku. Ég hafði greinilega pakkað stressinu og áhyggjunum vel niður einhvers staðar á Íslandi, þar sem ekki var snefill af því á ferðalaginu. Ameríkudvölin byrjaði á því að ég þurfti að redda mér ein yfir til D.C., sem á svosem ekki að vera neitt mál. En, ég er einstaklega seinheppin og missti auðvitað af lestinni og síminn var við það að gefa upp öndina.

Frúin á heimilinu sem vinkona mín bjó á vinnur á vegum Obama og fékk ég því að kynnast yfirstéttalífinu í nokkra daga. Hún bauð okkur í skoðunarferð um Hvíta húsið, þar sem við fórum fram fyrir langa röð af túristum og fengum einkatúr um húsið, en Kaninn kann svo sannarlega að láta manni líða eins og maður sé sérstakur. Obama var þó eitthvað vant við látinn og lét ekki sjá sig."


„Ég hélt ég myndi missa mig af spenningi"

Telma segir ferðina hafa byrjað fyrir alvöru þegar stöllur flugu yfir til Las Vegas.

„Vegas átti þó ekkert sérstaklega vel við mig, þar sem ég er hvorki aðdáandi fjárhættuspila né klúbbaskemmtunar. Við tókum bíl á leigu og keyrðum upp að Grand Canyon, sem var vel þess virði, enda einn fallegasti staður á jörðinni."

Eftir viðkomu í San Diego héldu Telma og Herdís til Los Angeles.

„Meðan við vorum að plana ferðina sendi ég inn umsókn um að fá að vera í stúdíói við tökur á þætti með dr. Phil. Ég var alls ekki viss um að fá svar, einfaldlega vegna þess hve óviðeigandi bréfið hefur líklegast verið, en þar lýsti ég einstakri aðdáun minni á doktornum og draumum mínum um að sjá hann í persónu. Mig rámar meira að segja í að einhvers staðar í bréfinu hafi verið talað um hreina ást. Mér til ómældrar ánægju fékk ég boð um að koma í þáttinn. Ég hélt ég myndi missa mig af spenningi – loksins fengi ég að hitta mann drauma minna!"

Telma og Herdís mættu í myndverið strax klukkan átta að morgni. „Það borgaði sig greinilega að sparsla vel yfir sólbrunann, greiða faxið og fara í betri fötin þar sem við sátum á þriðja fremsta bekk fyrir miðju – Phillarinn í beinni sjónlínu, yfirvaraskeggið vandlega snyrt og maðurinn óaðfinnanlegur. Þarna hafði ég lifað. Ég þurfti ekki meir. Hvert einasta orð var sem lögmál, maðurinn veit svörin við öllu.

Í fjóra tíma var ég í mínu eigin himnaríki og varð frekar sár þegar allt tók enda og raunveruleikinn blasti við. Sumir missa sig við að sjá Justin Bieber, Brad Pitt eða David Beckham, en minn veikleiki er sköllóttur, skeggjaður maður á áttræðisaldri."

Telma segir þær vinkonurnar að sjálfsögðu hafa rölt um „borg englanna" og þá sérstaklega á „Walk of Fame".

Þar hrópaði rappari á framabraut á eftir mér sem kallaði sig dr. Love og lærði nafnið mitt af Starbucks-glasi. Sjarmi minn hefur greinilega náð að halda sér þrátt fyrir svita og sólbruna. Mér stóð ekki alveg á sama en þetta gladdi samferðakonu mína óneitanlega. Við skoðuðum auðvitað hús fræga fólksins, eða öllu heldur hlið og runna. Fórum í Beverly Hills, tókum myndir af Hollywood-skiltinu og eyddum degi á Santa Monica-ströndinni."


Væri til í að gerast fangelsismálastýra í Alcatraz

Hinn stóri draumur Telmu rættist svo þegar hún fékk að skoða fangelsið í Alcatraz.

„Við fengum talsettan túr um fangelsið þar sem fyrrum fangar og fangaverðir segja sögur af ýmsum atburðum sem gerðust innan veggja fangelsisins, sem og viðtal við stúlku sem bjó á eyjunni ásamt fjölskyldu sinni. Mér þótti þetta alveg magnað og hefði vel getað hugsað mér að gista á eyjunni, já eða jafnvel enduropna svæðið og gerast fangelsismálastýra.

Í minjagripabúð inni í fangelsinu var einn fyrrum fangi að árita bók sem hann hafði skrifað um dvöl sína – það skemmdi ekkert fyrir að fá að sjá fyrrum Alcatraz-fanga með berum augum."

Telma og Herdís keyrðu svo um San Fransisco og enduðu ferðalagið með því að dvelja fimm daga í New York og í verslunarleiðangri í Boston.

„Ferðin var frábær í alla staði og ég hef ekki tölu á þeim kílómetrum sem voru labbaðir, keyrðir og flognir, en þeir voru allir vel þess virði. Að taka mánaðarreisu í bland við 100% háskólanám var þó ekki alveg úthugsað og ég þurfti að nýta þann lausa tíma sem ég hafði til að gera einstaka skilaverkefni, en að skila verkefni í gegnum snjallsíma og skrifa ritgerð á i-pad er ekki eitthvað sem ég óska nokkrum manni.

Ég var þó rosalega ánægð þegar ég steig á íslenska grundu og ennþá ánægðari eftir rúntinn yfir á Seyðisfjörð frá Reykjavík. Heima er alltaf best."

telma torshamar1telma torshamar2telma torshamar3telma torshamar4telma torshamar5
telma torshamar10

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.