„Söngurinn þarf að vera á sjálfstýringu"

thorsteinn10Eskfirski tenórinn Þorsteinn Árbjörnsson er rísandi stjarna í óperuheiminum og hefur átt mikilli velgengni að fagna að undanförnu.

Hann hélt til Bandaríkjanna til þess að læra söng að menntaskóla loknum og hefur nú búið ytra í tólf ár. Hann segir það hafa verið hark að koma sér inn í bransann en nú berast honum tilboðin eitt af öðru og stefnir hann jafnframt á að kynna sig í Evrópu á næstunni.

Þorsteinn er borinn og barnfæddur á Eskifirði og segir mikil forréttindi að hafa fengið að alast upp út á landi með öllu því frelsi sem því fylgir.
Þorsteinn var fjórtán ára þegar hann fór í fyrsta söngtímann fyrir tilstilli móður sinnar.

„Það var ekki mín hugmynd heldur var það mamma sem sendi mig – og því má líklega segja að þetta sé allt henni að þakka," segir Þorsteinn. Hann segist ekki hafa fundið sig í upphafi enda erfitt fyrir strák sem er að ganga í gegnum raddbreytingar að hefja söngnám.
„Það var ekki fyrr en Keith Reed setti upp Óperustúdíóið á Eiðum sem áhuginn kviknaði og allt breyttist. Ég var þar í kórnum og settar voru upp heilu óperurnar og það var frábært að fá að taka þátt í þeirri vinnu. Við vorum allt upp í sex vikur á Eiðum að æfa en ég byrjaði í kórnum og söng síðan nokkur aðalhlutverk þar."

Þorsteinn fór svo í Menntaskólann á Egilsstöðum og kláraði hann á þremur og hálfu ári, auk þess að klára áttunda stig í söng. Á þessum tíma segist hann hafa verið búinn að ákveða að leggja sönginn fyrir sig.

Haustið eftir hélt hann í söngnám til Bandaríkjanna. Hann segir það ekki hafa legið beinast við að leita þangað þar sem mun algengara er að Þýskaland eða Austurríki verði fyrir valinu í þeim geira.

„Í Bandaríkjunum er söngnámið heildstæðara og var það eitthvað sem ég hafði áhuga á, það byggðist ekki aðeins á söng, heldur einnig á tónfræði, tónlistarsögu og fleiru sem heillaði mig að hafa með. Ég fann kennara sem heitir Salvatore Champagne. Við vorum eitt ár í Oklahoma University og fórum svo yfir til Oberlin Conservatory í Ohio, þaðan sem ég útskrifaðist með Bachelor of Music, 24 ára gamall."


Þetta er mikið genalottó

Þorsteinn söng mikið á ýmsum stöðum meðan á náminu stóð og hefur verið á fullu síðan, að langmestu leyti í Bandaríkjunum.

„Að útskrifast sem óperusöngvari er bara eins og að útskrifast sem leikari, maður þarf að sanna sig til þess að fá hlutverk. Ég er reyndar heppinn að því leyti að ég er tenór, hávaxinn og í ágætis formi, en það telur í þessum bransa. Svo er ég „tenór leggiero", sem merkir að ég get sungið hánótur og það sem kallast „Coloratura". Þess vegna er þetta allt saman aðeins auðveldara fyrir mig og ég reyni að sérhæfa mig í verkum sem fáir aðrir geta sungið."

Aðspurður hvort þessi stóra rödd sé ekki í genunum segir Þorsteinn: „Þetta er mikið genalottó þó svo auðvitað sé mikil þjálfun lykilatriði. Það var strax ljóst að ég kæmist mjög hátt upp en sumir æfa sig eins og brjálæðingar en eru þrátt fyrir það alltaf í veseni."


Hlutirnir gerast í New York

Þorsteinn hefur búið í New York í þrjú ár og segir hann það hafa verið mikla vinnu að koma sér á framfæri í borginni.

„Það tekur alveg tvö til þrjú ár að sanna sig í New York, bara til þess að fólk viti af þér, þetta var algert hark. Það er hálfundarlegt, en tónlistarfólk er eini hópur fólks sem ég veit um sem þarf að vinna ákveðinn hluta verkefna fyrir lítinn sem engan pening. Mér fannst mjög erfitt að sætta mig við þetta, af hverju ætti ég ekki að fá borgað fyrir mína vinnu þegar allir aðrir fá það? En þetta er víst partur af bransanum og nauðsynlegt til að fá reynslu.

Mér semsagt bauðst illa borgað verkefni í gegnum píanista sem ég þekkti. Félagi hans á fyrirtæki sem vinnur með fólki um allan heim og mér bauðst að syngja La Traviata fyrir mjög lítinn pening. Ég hugsaði mig um og lét svo slag standa. Það borgaði sig svo sannarlega því út frá því kynntist ég fullt af fólki og hef fengið ótal verkefni.

Nú er ég kominn með góðan umboðsmann og er orðinn eftirsóttur í ýmis verkefni. Í dag fæ ég beiðni um flest mín verkefni í stað þess að fá þau gegnum áheyrnarprufur. Auðvitað þarf ég svo að standa mig vel í hverju þeirra til þess að velgengnin haldi áfram."

Þorsteinn kynntist konunni sinni, Katherine Butler, í New York. Katherine starfar í markaðsmálum hjá Mondelez, sem er eitt stærsta matvælafyrirtæki heims.


Breytt heimsmynd óperusöngvara

Þorsteinn fer í margar prufur árlega sem vitaskuld skila ekki allar árangri.

„Maður fær fimm mínútur og svo er það búið. Ég er fljótur að gleyma og reyni að taka það ekki inn á mig, fái ég ekki verkefnið. Staðreyndin er að af tíu prufum færðu pottþétt átta nei. Ef þú ætlar að taka það allt inn á þig, þá er alveg eins gott að hætta strax."

Þorsteinn segir óperusöngvara ekki búa við sömu heimsmynd og forverar hans á borð við Pavarotti. „Bransinn er orðinn mikið breyttur og mun harðari, við komumst ekki upp með það sama og þeir. Samkeppnin er harðari, það eru fleiri sem geta sungið, en það sem hefur aðallega breyst er að aðrar kröfur eru mun meiri.

Það er ekki nóg að geta sungið vel, heldur er líka nauðsynlegt að vera góður leikari, í góðu líkamlegu formi, líta vel út og kunna mörg tungumál – meðan þeirra helsta verkefni var að syngja fallega. Nú eru það leikstjórar sem ráða fólk í verkefni meðan áður fyrr voru það stjórnendur. Stundum sér maður um leið og maður labbar inn að þeir eru ekki að leita að þér þannig að það hefur ekkert með þig eða þinn söng að gera. Auðvitað fær bara besti maðurinn verkið, hvað sem það merkir, hvort sem það er besti leikarinn eða besta röddin.

Aðalmálið er að gleyma sjálfum sér og reyna bara að gera allt átómatískt til þess að geta lifað sig inn í hlutverkið. Það krefst þess að rullan þarf að vera 100% æfð til þess að þurfa ekki að eyða orku í að hugsa um tæknina, söngurinn þarf að vera á sjálfstýringu."

Þorsteinn hefur lítið sungið hér á landi. „Það veit enginn hér heima hver ég er og það er algerlega mér sjálfum að kenna. Auðvitað væri ég til í að syngja meira á Íslandi og það kemur að því. Það er fullt af góðum söngvurum hérlendis, líka margir góðir íslenskir söngvarar sem hafa sungið í mörg ár í stærstu óperuhúsum Evrópu og enginn veit um.

Maður þarf eiginlega að vera með annan fótinn í Evrópu og hinn í Bandaríkjunum. Ég hef ekkert verið í Evrópu í átta ár, en það er á plani vetrarins að vinna í því. Ég kann öll þessi verk og er kominn með góðan pakka til þess að bjóða upp á. Ég tók síðustu tvö ár til þess að læra þessar rullur því oftast nær er það þannig að maður verður að vera klár þegar kallið kemur."

Nú fer í hönd sá árstími sem er hvað annasamastur hjá óperusöngvurum. Í október, nóvember og desember ár hvert fara flestar áheyrnarprufur fram í New York en þá mæta bæði fyrirtæki og söngvarar á staðinn. Oft eru prufur fram í tímann, fyrir næsta ár eða þarnæsta.


Tala við mömmu á Facetime á hverjum degi

Þorsteinn hefur búið í Bandaríkjunum í tólf ár. Hvernig tekur hann á söknuði eftir fjölskyldunni og samskiptum við hana og vini?

„Þetta er orðið svo ótrúlega einfalt í dag, ég tala við mömmu á Facetime á hverjum einasta degi og hef einnig mikið samband við aðra fjölskyldumeðlimi og vini gengum Facetime og Wiper, þannig að ég upplifi ekki að ég sjái þau eins sjaldan og ég geri. Foreldrar mínir hafa líka verið duglegir að koma og sjá sýningarnar mínar um allan heim."

Þorsteinn hélt tvenna tónleika á Austurlandi fyrir stuttu ásamt Eskfirðingnum og píanóleikaranum Þorvaldi Erni Davíðssyni. Tónleikarnir nefndust Draumalandið NO 1 og byggjast á íslenskum sönglögum og er geisladiskur með sama nafni og tónlist væntanlegur.

Hann segist alltaf vera örlítið meira stressaður að syngja á heimaslóðum en annars staðar. „Það er allt öðruvísi. Mér finnst ég alltaf þurfa að sýna hvað í mér býr og hjartað sló því aðeins hraðar á sunnudaginn en á öðrum tónleikum. Það skiptir mig miklu máli að fá að syngja fyrir heimafólkið mitt en það hefur verið svo stór partur af þessu ævintýri mínu."

Áætlað er að Þorsteinn standi fyrir sömu tónleikum í Bandaríkjunum í haust undir nafninu Homeland.
thorsteinn2


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.