„Vettvangur nýsköpunar sviðsverka á landsbyggðinni"

runar gudbrandssonErtu með leikrit í skúffunni eða langar þig bara að byrja að koma hugmyndunum á blað? Þá gæti Okkar eigin - höfundasmiðja verið eitthvað fyrir þig.

Okkar eigin – höfundasmiðjur bjóða upp á skapandi stefnumót fyrir byrjendur og lengra komna á Austurlandi í haust. Rúnar Guðbrandsson leikstjóri og Arnaldur Máni Finnsson standa að smiðjunum í samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, miðstöð sviðslista á Austurlandi.

Rúnar hefur leitt sambærilegar hugmyndasmiðjur í Þjóðleikhúsinu í samstarfi við Leikskáldafélag Íslands. Hefur hann einnig verið prófessor við Sviðslistabraut LHÍ og kennir við Kvikmyndaskóla Íslands og Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga á Húnavöllum. Arnaldur Máni er guðfræðingur, handritshöfundur og gagnrýnandi.


Vettvangur nýsköpunar sviðsverka

Út á hvað ganga höfundasmiðjurnar? „Þær eru hugsaðar sem vettvangur nýsköpunar sviðsverka á landsbyggðinni þar sem fagfólk leiðir áfram vinnu, bæði áhugasamra byrjenda og lengra kominna sviðshöfunda. Smiðjurnar eru hugsaðar á þann hátt að fólk geti bæði komið og unnið að verkum sem komin eru áleiðis sem og að fyrstu hugmyndum af stærri verkum," segir Rúnar.

Rúnar segir smiðjurnar byggja á skrifum, upplestri og því að þátttakendur fái tækifæri til þess að fá verk sín lesin af fagfólki og viðbrögð við þeim. „Þetta er kjörið tækifæri þar sem margt af okkar framsæknasta leikhúsfólki verður á staðnum til þess að taka þátt í umræðum og veita leiðsögn til gera hugmyndirnar spennandi efni fyrir sviðið."

Meðal leiðbeinenda má nefna þau Tyrfing Tyrfingsson, Lilju Sigurðardóttur, Þorgeir Tryggvason, Kristínu Eiríksdóttur, Silju Hauksdóttur, Ingibjörgu Magnadóttur, Soffíu Bjarnadóttur og Sigríði Láru Sigurjónsdóttur.

„Smiðjurnar eiga bæði að geta nýst þeim sem lengra eru komnir sem og ungu fólki sem vill bæta sig í skapandi skrifum og læra betur hvernig á að skrifa samtöl og texta sem er ætlaður til flutnings," segir Rúnar.


Uppbyggingarsjóður Austurlands styður framkvæmdina

Hugmyndasmiðjurnar voru haldnar á Flateyri í fyrrahaust. „Okkar eigin Flateyri tókst afar vel," segir Arnaldur Máni og bætir við að áhugasamir geti fundið útvarpsþátt á ruv.is sem Útvarpsleikhús Rásar 1 flutti í síðustu viku og nefndist Okkar eigin Flateyri.

Uppbyggingarsjóður Austurlands styður framkvæmd smiðjanna hér eystra í ár og er því mögulegt að stilla námskeiðsgjaldi í hóf.

Um er að ræða þrjár vinnuhelgar á tímabilinu 25. september til 25. október. Hægt er að sækja allar helgarnar eða staka helgi, allt eftir því sem þátttakendum hentar best, en sú fyrsta verður á Seyðisfirði 25.-27. september.

Verð fyrir allar þrjár helgarnar er 42.500 krónur, sé greitt fyrir 24. september. Hver stök helgi kostar 22.000 krónur. Mörg stéttarfélög taka þátt í niðurgreiðslu námskeiðsgjalda og eru áhugasamir hvattir til þess að skoða þann möguleika.

Allar frekari upplýsingar má finna á samskiptasíðu „Okkar eigin" á Facebook, auk þess sem velkomið er að hafa samband við umsjónaraðilana í síma 822-8318 eða gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.