Nýtti hamarinn úr hjúkkudótinu til að berja bróður sinn: Hrafnkatla Eiríksdóttir í yfirheyrslu

hrafnkatla eiriksdottir webHrafnkatla Eiríksdóttir komst í Austurfréttir vikunnar þegar hún auglýsti eftir stelpum frá sínum heimaslóðum til þess að skrá sig og taka þátt í æfingabúðum „Gettu betur stelpna" sem haldnar verða í Reykjavík um helgina.

Hrafnkatla er með B.S. gráðu í náttúru- og umhverfisfræðum og á aðeins eftir 20 einingar til þess að klára B.A. í þjóðfræði, sem hún stefnir á að gera eftir áramót.

Gettu betur hópurinn samanstendur af konum sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið þátt í spurningakeppninni Gettu betur og vilja leggja sitt af mörkum til þess að kynna keppnina fyrir stelpum og leitast þannig við að auka hlut þeirra innan hennar.

„Einhverra hluta vegna eru stúlkur á unglingsaldri mun smeikari við álit annarra og hafa minna sjálfstraust en strákar á sama aldri. Maður myndi aldrei heyra strák sem færi í Gettu betur forpróf afsaka sig ef hann vissi ekki eitthvað, en því miður er það raunin með stelpur, þó svo þær svari oft á tíðum mun fleiri atriðum rétt en strákarnir.

En við erum að vona að með því að leyfa stelpunum að prófa allt það sem Gettu betur býður upp á; þ.e. forpróf, semja spurningar, taka þátt í keppni og fleira að þá verði þær ófeimnari við að prófa að skrá sig og taka þátt í forprófum síns skóla því þær hafa séð að þetta er skemmtilegt og viðráðanlegt," sagði Hrafnkatla í samtali við Austurfrétt í vikunni, en greinina í heild sinni má lesa hér.


Fullt nafn:
Hrafnkatla Eiríksdóttir.

Aldur:
27 ára.

Maki:
Ég er ekki gift, nei.

Börn:
Ég er alltof ung til að eiga börn.

Fyrsta æskuminning?
Man ekki nákvæmlega hver hún er. Ein er þó frá þriggja ára afmælinu mínu, þar sem ég fékk hjúkkudót og ég notaði hamarinn sem kom með því setti óspart til að slá litla bróðir minn. Hann átti eflaust mjög erfiða tíma eftir þennan afmælisdag.

Besta ákvörðun?
Að flytja hinumegin á landið eftir framhaldsskólann, burt frá öllu og öllum. Það er virkilega þroskandi og gefandi að fara svona hressilega út fyrir þægindarammann.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum?
Þá myndi ég útrýma fordómum.

Hver er þinn helsti kostur?
Ég er mjög fróðleiksfús og elska að kynna mér hluti sem ég hef ekki mikið vit á til að dýpka skilning minn á þeim. Útaf þessu veit ég fullt af fáránlegum hlutum.

Hver er þinn helsti ókostur?
Ég er alveg rosalega feimin. Ég þori varla að heilsa fólki úti á götu þótt ég þekki það. Svo bætir það ekki úr skák að ég er ofsalega ómannglögg.

Hvernig líta kósýfötin þín út?
Það er yfirleitt bara léttur og þægilegur kjóll, eða þá víðar bómullarbuxur (oft náttbuxur) og hlýrabolur. Á mikið úrval af kósýfötum. Trúi ekki á óþægindi.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Ég á enga fyrirmynd, reyni bara að vera besta útgáfan af sjálfri mér.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég myndi vilja hitta Malölu.

Markmið fyrir veturinn?
Að klára síðustu 20 einingarnar í þjóðfræðinni. Síðan þykist ég alltaf ætla að fara út að hlaupa og skrá mig í maraþon á sumrin – en það hefur ekki gerst ennþá.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju?
Að vaska upp hefur alltaf verið það leiðinlegasta sem ég veit. Sennilega af því að maður þarf að gera það svo oft.

Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn?
Í þyngri kantinum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Lasagne og fiskibollurnar hennar mömmu.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Jökuldalurinn er að sjálfsögðu alltaf uppáhalds. Skriðuklaustur er líka í fallegu umhverfi.

Hæfileiki sem fáir vita af?
Ég elska að elda og baka og tel mig vera mjög hæfileikaríka á því sviði.

Hvað hræðist þú mest af öllu?
Sprautur! Og allt sem er oddhvasst og aðrir halda á. Köngulær og aðrar áttfætlur eru heldur ekki ofarlega á vinsældalistanum mínum.

Ef þú þarft að „hringja í vin" hver er það og af hverju?
Það færi eftir því hvert vandamálið væri. Á ólíka vini fyrir ólík vandamál. Kolbjörg hefur þó reynst mér vel í sumar þegar mig hefur vantað hitt og þetta því hún á allt.

Hvað ætlar þú að gera um helgina?
Um helgina verð ég að skemmta mér ásamt fjölda ungra stúlkna og reynslubolta í Gettu betur æfingabúðum fyrir stelpur sem búnar eru að vera í undirbúningi síðan í vetur. Hlakka gífurlega mikið til og vonandi tekst þetta eins vel upp og í fyrra.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.