Bókstafur gefur út austfirsk ljóðskáld

sigga lara jan15 0013 webBókaforlagið Bókstafur á Egilsstöðum mun í september gefa út tvær ljóðabækur eftir austfirska höfunda.

Annars vegar er um að ræða fyrstu bók Urðar Snædal, frá Skjöldólfstöðum á Jökuldal. Hún mun heita Píslirnar hennar mömmu, og fjallar að mestu um reynslu höfundar af meðgöngu og fæðingu tveggja barna sinna, sem hún fjallar um með húmorinn og eðlislæga kaldhæðni að leiðarljósi. Kápu bókarinnar gerði Ingunn Þráinsdóttir og má sjá hana með því að smella á myndina hér til vinstri á síðunni.

Hins vegar mun Bókstafur gefa út ljóðabókina Skapalón eftir Lubba klettaskáld. Lubbi er Fellbæingur og gengur dags daglega undir nafninu Björgvin Gunnarsson. Skapalón er hans fimmta ljóðabók, en hún kom áður út í takmörkuðu upplagi hjá höfundi árið 2012.

Útgáfa bókanna mun haldast í hendur við Litlu ljóðahátíðina í Norðausturríki, en hún verður haldin í þriðja sinn dagana 17.-20. september.

Að sögn Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Bókstafs, er ánægjulegt að geta komið þessum góðu höfundum á framfæri.

„Það er alveg frábært að geta hafið útgáfuhrinu haustsins með því að gefa út austfirska höfunda. Þetta eru skáld sem eiga heilmikið erindi til allra þeirra sem unna góðum ljóðum.“

Hún segir annars heilmargt vera á prjónunum þegar horft er til haustsins í útgáfumálum.

„Það mun koma út bók eftir írska rithöfundinn Marian Keyes sem nefnist Er einhver þarna? Við gáfum út aðra bók eftir hana, Rachel fer í frí, nú í vor og þær eru báðar þýddar af Sigurlaugu Gunnarsdóttur. Síðan er það bókin Eins og stelpa eftir leikhúsfræðinginn og pistlahöfundinn Emer O´Toole í þýðingu Ingunnar Snædal. Sú bók fjallar um kynjahlutverk og það að þora að leika hlutverkin sín á annan hátt en samfélagið segir okkur að gera.

Síðan erum við að vinna í að setja saman bók um gönguleiðir á fjöll á Austurlandi. Fyrsta skrefið í því verkefni er uppsetning á gönguleiðavefsíðunni 101austurland.is þar sem við höfum þegar birt nokkrar gönguleiðir.

Það skortir ekkert á að það er hæfileikafólk hér fyrir austan til þess að vinna með og gefa út. Ég vona bara að fólki finnist þess virði að kaupa þetta og geri okkur þannig kleift að halda áfram á sömu braut.“

ljodabok urdur
ljodabok lubbi

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.