„Það er bara skemmtileg tónlist á JEA": Árleg tónlistarveisla á Austurlandi

JEA2015 webHin árlega Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi, verður laugardaginn 27. júní.

Framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Jón Hilmar Kárason, segir að dagskráin í ár verði að vanda fjölbreytt og skarti frábærum tónlistarmönnum og hljómsveitum.

„Þetta er í 28. skipti sem hátíðin er haldin og verður hún í Valaskjálf í ár, á þeim stað sem hún hófst fyrir 27 árum síðan – en húsið hefur gengið í endurnýjun lífdaga og er mjög vel í stakk búið fyrir hverskonar tónlistarflutning.

Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi, eða JEA, hefur verið árviss viðburður síðan 1988, þegar Jón Múli Árnason setti fyrstu hátíðina. Í gegnum árin hefur hátíðin skartað frábærum listamönnum, á borð við Larry Carlton, James Carter, Svend Assusend og Beady Belle," segir Jón Hilmar.

Hátíðin skartar frábærum listamönnum

„Austfirskir tónlistarmenn skipa ávallt stóran sess á JEA, enda af mörgum frábærum hljómsveitum úr að velja. Það er bara skemmtileg tónlist á JEA," segir Jón Hilmar.
  • Jack Magnet Quintet flytur nýstárlega blöndu af jazzi, fönki, raftónlist og íslenskri sveiflu, með nokkrum sungnum smellum, sem jafnan fá að hljóma undir lok hverra tónleika. Hljómsveitin samanstendur af skrautlegum og bráðmúsíkölskum vinahópi Jakobs Frímanns Magnússonar.
  • Björn Thoroddsen hefur á undanförnum árum stjórnað gítarfestivölum út um allan heim og ætlar að loka hringnum með Reykjavik Guitarama í haust þar sem Al Di Meola, Robben Ford o.fl. koma fram.
  • Beebee and the Bluebirds er ein athyglisverðasta blúshljómsveit landsins í dag, með tónlistarkonuna Brynhildi Oddsdóttur í fararbroddi. Þau eru að fagna útgáfu plötunnar Burning Heart og leika meðal annars efni af henni.
  • Garðar Eðvalds og stórsveit er skipuð frábærum tónlistarmönnum og forsprakki sveitarinnar, Garðar Eðvalds er austfirskur tónlistarmaður og leikur þessi níu manna sveit efni eftir hann.
  • Ranghalar, sem er austfirsk hljómsveit, sækja innblástur í ýmsar áttir t.d. í jazz, fönk og progg og pakka þau útkomunni saman í nýrómantískan hljóðheim níunda áratugarins. Hljómsveitin vinnur að sinni fyrstu hljómplötu sem er væntanleg síðsumars.

Margir hlakka til að sjá Bjössa Thor

Jón Hilmar segir gríðarlega góða stemmningu vera fyrir hátíðinni í ár. „Margir eru spentir fyrir að sjá Jack Magnet, enda voru þeir með gott „kombakk" á Jazzhátíð Reykjavíkur í fyrra. Marga hlakkar einnig til að sjá Bjössa Thor, enda hefur hann spilað meira erlendis en hér heima síðustu ár. Af öllum þeim verkefnum sem ég sé um er Jazzhátíðin alltaf eitt af þeim skemmtilegri."

Miðasala fer fram á www.tix.is og á veitingastaðnum Salt. Frekari upplýsingar er að finna á www.jea.is.
ranghalar web3



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.