Magnús í Höfn: Æðarfuglinn finnur öryggi í mannaferðum

magnus hafnarholmi mai15 0005 webVarp æðarfugls á Borgarfirði eystra er með seinna móti í ár. Magnús Þorsteinsson, bóndi í Höfn sem nytjað hefur fuglinn í áratugi, segir fuglinn kunna að meta hjálp mannsins við að búa honum skjól.

„Æðarfuglinn er aðalfuglinn hér í Hafnarhólmanum en allt varp er með síðasta móti í ár," sagði Magnús þegar Austurfrétt hitti á hann í hólmanum á miðvikudaginn í síðustu viku.

Þann morgun sást fyrsti æðarfuglinn í hólmanum. „Meðbyrjunartími varps undanfarin 20 ár hefur verið 12. maí. Í fyrra byrjaði hann 4. eða 5. maí en ef illa hefur viðrað hefur varpið ekki byrjað fyrr en 20. maí."

Magnús hefur í áratugi nytjað æðarfuglinn. Í hólmanum hefur hann komið upp skýlum fyrir fuglinn sem hann nefnir Hótel Borg, Hótel Holt og Hótel Sögu. Þar er einnig að finna skýli sem hann skilgreinir sem mótel og eru heldur minni að umfangi.

„Maður er svolítið að dunda og þykist vera að laga eitthvað fyrir fuglinn. Það skiptir ekki öllu hvað gert er heldur að fuglinn fyrir mannaferðum og viti að eitthvað sé verið að gera fyrir hann."

Þá ver maðurinn varpstöðvar fuglsins fyrir vargi, svo sem ref, mink og eftir föngum ránfuglum.

„Refurinn hefur aldrei komið hér út í hólmann en það þarf að vera á vakt allt árið til að halda minknum í skefjum. Það hefur tekist að halda honum niðri hér í Borgarfjarðarhrepp og það er mikið minna af honum síðustu fjögur eða fimm ár."

Nánar var rætt við Magnús í Glettum að austan sem sendar voru út á N4 í gærkvöldi. Horfa má á þáttinn hér að neðan.





Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.