„Það er pláss fyrir alla": Götuþríþrautin á Eskifirði

gotuþriþraut webGötuþríþrautin á Eskifirði fer fram laugardaginn 6. júní, en um er að ræða skemmtilega íþróttakeppni sem allir geta tekið þátt í.

Götuþríþrautin samanstendur af sundi, hjólreiðum og hlaupi. Keppt er í þremur flokkum.

SPRINT (einstaklings- og liðakeppni)
  • 750 m sund, 20 km hjólreiðar og 5 km hlaup.
  • Keppt er í unglingaflokki, 14-24 ára karla og kvenna og fullorðinsflokki 25 ára+, karla og kvenna.
SUPER SPRINT (börn og liðakeppni)
  • 400 m sund, 10 km hjólreiðar og 2,5 km hlaup
  • Flokkurinn er ætlaður börnum frá fyrsta til sjöunda bekkjar. Aðeins má einn fullorðinn vera með í liðinu.
  • Nú gefst fötluðum einstaklingum kostur á því að taka þátt, en einn fatlaður þarf að vera í liðinu sem má samanstanda af tveimur eða þremur einstaklingum.
Olympísk vegalengd (einstaklings- og liðakeppni 14 ára+)
  • 1500 m sund, 40 km hjólreiðar og 10 km. hlaup

Fann réttu keppnina í London

Díana Mjöll Sveinsdóttir er forsprakki þríþrautarinnar. „Mig hafði lengi dreymt um einhvers konar keppni á svæðinu sem myndi sameina alla fjölskylduna við undirbúning og þátttöku. Ég tók svo þátt í þríþraut í London árið 2008 og 2009 og komst að því að þetta væri sú grein sem ég hafði leitað að, en fyrsta götuþríþrautin var svo haldin hér á Eskifirði um sjómannadagshelgina árið 2010."

Götuþríþrautin hefur fest sig í sessi sem árlegur íþróttaviðburður í fjórðungnum, en þátttakan hefur aukist ár frá ári. „Í fyrra vorum við með yfir 70 keppendur. Markmiðið okkar er bæði að fjölga fólki og einnig fá inn fólk sem aldrei hefur tekiði þátt.

Við höfum fengið alla flóruna í keppnina – fólk sem hefur tekið þátt í Ironman, í þríþraut, krakka sem voru að klára 1. bekk og hafa aldrei fundið íþróttagrein við hæfi, elsti keppandinn okkar er 67 ára, fólk frá öllum landshornum og fólk sem hélt það ætti aldrei eftir að taka þátt í íþróttakeppni. Það er pláss fyrir alla og það er svo skemmtilegt og margir hafa tekið þátt á hverju ári. Það er hvatning að geta verið í liði og það hefur myndast alveg mögnuð undirbúningsstemming öll árin.

Til gamans má geta að nokkrir einstaklingar hafa ákveðið að fara til London í ágúst 2016 til að taka þátt í fjölmennustu þríþrautarkeppni í heimi og við viljum endilega stækka þann hóp, þannig að ef það er einhver þarna úti sem hefur áhuga á því, þá er um að gera að hafa samband og vera í samfloti með hinum."


Allur ágóðinn rennur til uppbyggilegs starfs

Slík keppni verður ekki að veruleika nema með ómetanlegu framlagi fjölda sjálfboðaliða. „Það þarf um 30 sjálfboðaliða til að láta allt ganga. Mig langar að nota tækifærið og þakka þeim sem hafa komið að keppninni í gegnum árin kærlega fyrir, án þeirra væri þetta ekki mögulegt," segir Díana Mjöll.

Allur ágóði Götuþríþrautar rennur til uppbyggilegs starfs fyrir ungt fólk á Austurlandi. „Hingað til höfum við styrkt Kuldabola, landsmót unglingadeilda björgunarsveitanna og æskulýðsfélög þjóðkirkjunnar á Austurlandi. Þar sem gefum fötluðum kost á því að vera með í ár þykir okkur við hæfi að styrkja starfsemi fyrir ungt fatlað fólk á Austurlandi í framhaldi."

Skráningar og nánari upplýsingar eru á www.gotu3.com eða á www.facebook.com/gotuthree


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.