"Hef verið forfallinn Eurovisionfíkill síðan Dana vann": FFE klúbburinn í Fellaskóla

Eurovision fellaskóliKlúbburinn FFE, eða Félag forfallinna Eurovisionaðdáenda, hefur verið starfræktur í Fellaskóla í Fellabæ í nokkur ár.

Sverrir Gestsson, skólastjóri, er stofnandi og formaður klúbbsins.

„Klúbburinn er nú ekki stór, telur sex manns – sem allir eru núverandi eða fyrrverandi starfsmenn skólans. Auk þess er Gréta Jóna Sigurjónsdóttir, Dúkkulísa, heiðursmeðlimur klúbbsins.

Við hittumst síðastliðið mánudagskvöld til þess að spá fyrir um það hvaða lög kæmust upp úr báðum undanriðlunum. Sjálfur var ég með níu rétt lög af þeim tíu sem komust áfram á þriðjudagskvöldið – var aðeins finnska lagið sem ég klikkaði á, en í staðinn komst Georgía áfram, en ekkert okkar hafði spáð því," segir Sverrir.

Sjálfur segist Sverrir ekki hafa spáð Íslandi upp úr undanriðlinum í ár, en þó voru fleiri innan hópsins sem töldu að hún kæmist áfram en ekki. „Mér finnst María standa sig vel, mér finnst það bara ekki alveg nógu sterkt. Svo er þetta kannski bara mín leið til þess að verða ekki fyrir vonbrigðum í kvöld. Persónulega er norska lagið mitt uppáhalds í ár."


Eurovision svo miklu meira en sönglagakeppni

Sverrir segist hafa verið forfallinn eurovisionfíkill frá þrettán ára aldri, eða frá því að Dana sigraði árið 1970. „Á þessum tíma var ekkert internet og var keppnin því kjörið tækifæri til þess að kynnast menningu og tónlist framandi landa. Þess utan er þetta frábær sönglagakeppni sem alltaf hefur verið ákveðin stemmning í kringum."

„Fyrir mér er Eurovision miklu meira en sönglagakeppni. Þemað í ár er að „byggja brýr" – en það er einmitt eitthvað sem mér finnst keppnin oft hafa stuðlað að. Hún hefur opnað umræðu um samkynhneigð og svo auðvitað vann Conchita Wurst í fyrra. Í ár eru Finnar með fatlaða flytjendur, þannig að það má alveg segja að verið sé að byggja brýr, mér finnst þetta mjög jákvætt."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.